Brim segist harma mál Boga og segir verkferla hafa brugðist

Brim ætlar að endurskoða verkferla sína og segist harma það hvernig staðið var að brottrekstri sjómannsins Boga Theodórs Ellertssonar hjá fyrirtækinu í tilkynningu sem birtist á vefsíðu útgerðarinnar.

Bogi Theodór missti vinnuna eftir að hafa skilað inn veikindavottorði vegna andlegs áfalls. Hann hefur verið sjómaður hjá útgerðinni í fleiri ár en hefur lent í röð áfalla síðastliðin ár.

Í fyrra missti hann barnabarn sitt, og þá er hann nátengdur harmleiknum á Blönduósi þar sem hann missti bestu vinkonu sína og horfði upp á æskuvin sinn fluttan milli heims og helju á sjúkrahús.

Eiginkona hans Þórhildur Helga Þorleifsdóttir ræddi málið við Fréttablaðið í gær. Þór­hildur segir það frá­leitt að líta ekki á­fall sem veikindi. „Svo það þurfa að vera standa í svona að þurfa hafa á­hyggjur af vinnu og af­komu þegar maður er í djúpri sorg.“

Verkferlum verði breytt

Brim segist harma mál Boga í tilkynningu.

„Brim harmar að verkferlar félagsins hafi brugðist í þessu máli. Mikilvægt er að fyrirtækið sýni starfsfólki og aðstendum þess samúð og skilning við eins erfiðar aðstæður og komu upp í þessu tilviki.“

Þá segist félagið ætla að endurskoða verkferla sína og viðbrögð við erfiðum áföllum starfsfólks, en að öðru leyti muni félagið ekki tjá sig um einstaka starfsmenn.