Telja norska hagkerfið of lítið fyrir sjálfstæða mynt

Gengi norsku krónunnar hefur lækkað um helming á gjaldeyrismörkuðum undanfarinn áratug. Í byrjun síðasta mánaðar var gengið það lægsta sem verið hefur í tvö ár. 

Í nýlegri umfjöllun Nettavisen um norsku krónuna er haft eftir Jan Ludvig Andreassen, aðalhagfræðingi Eika-gruppen að hagfræðingar hafi áhyggjur af því að norska hagkerfið sé of lítið til að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli.

Að sögn Andreassens hefur fólk miklar áhyggjur af stöðu krónunnar innan um stærri gjaldmiðla. Norski peningamarkaðurinn sé of lítill og óáhugaverður. Spurningin er hvort örlög norsku krónunnar verði þau að farin verði sama leið og Danir hafa farið með sína krónu og evran verði smám saman tekin upp í Noregi.

Þeim fer fjölgandi í Noregi sem telja mikilvægt að ræða alvarlega stöðu gjaldmiðilsins. Í hópi þeirra er stjórnmálafræðingurinn Paal Frisvold sem sér um alþjóðleg samskipti hjá umhverfisflokknum, De Grønne.

Hann segir þróun gjaldeyrismarkaðarins nú vera þvert á það sem norskir hagfræðingar hafa haldið fram um að helstu áhrifavaldar á gengi norsku krónunnar séu olíuverð og vaxtastigið. „Nú fara vextir hækkandi og olíuverð er mjög hátt en samt heldur krónan áfram að lækka. Hagfræðingarnir hafa haft rangt fyrir sér,“ segir Frisvold.

Nýr veruleiki

Hann telur góðar og gildar ástæður fyrir því.

„Hér áður fyrr voru gjaldeyrismiðlarar sem tóku stöður á markaði út frá mati á pólitískum og efnahagslegum þáttum. Þetta hefur breyst vegna þess að markaðir eru orðnir mun stafrænni. Nú eru það algóritmarnir sem meta stöðuna og þá koma aðrir þættir inn.“

Frisvold bendir á að þrátt fyrir að norska krónan sé mjög lítill gjaldmiðill hafi hún verið örugg fjárfesting vegna þess að norska hagkerfið hafi verið traust og Olíusjóðurinn hafi verið tröllvaxinn gjaldeyrisvarasjóður.

„Það hefur verið óhætt að kaupa norska krónu en algóritmarnir meta líka hvernig það er að selja sig út úr henni. Þar hefur áhættan aukist stórlega vegna þess að æ erfiðara verður að selja norsku krónuna ef hún heldur áfram að lækka.“

Verðbólguhvetjandi

Frisvold telur betra fyrir norska hagkerfið að tengja krónuna við stöðugan gjaldmiðil sem jafnframt sé mynt mikilvægustu viðskiptalanda Noregs.

„Veik króna er hagstæð fyrir norskan útflutning en vandamálið er að hún er einnig verðbólguhvetjandi. Allur innflutningur hækkar í verði og það leiðir til hækkunar verðlags almennt. Veik króna eykur samkeppnishæfni Noregs en hefur neikvæð áhrif á verðlag og dregur úr kaupmætti. Þegar verðbólguþrýstingur eykst verður norski seðlabankinn að hækka vexti sem dregur úr kaupmætti norskra launþega,“ segir Frivold.

Að sögn hans hefur veik króna einnig áhrif á kjaraviðræður í landinu. Eftir því sem gengi krónunnar lækkar og verðlag hækkar í Noregi skerðist kaupmáttur launþega sem á móti gera meiri launakröfur að hans mati.

Danska módelið

Hann telur því danska módelið geta verið áhugavert fyrir Noreg.

Danska módelið gengur út á samkomulag Dana við Evrópska seðlabankann um að danska krónan sé bundin evrunni með fastgengi. Komi þrýstingur á dönsku krónuna kaupir evrópski seðlabankinn danskar krónur á gjaldeyrismarkaði til að tryggja stöðugt gengi hennar.

Frisvold telur einnig koma til greina að semja við Evrópska seðlabankann um að hann tryggi að norska krónan fari ekki upp eða niður fyrir tiltekin viðmörk gagnvart evru.

Hann telur einnig að olíuútflutningsríkið Noregur sé í viðkvæmri stöðu í heimi kolefnislausum heimi. Orkuskiptin verði Noregi þungbærari en flestum öðrum löndum vegna þess hve mikilvægur olíuiðnaðurinn sé hagkerfinu. 

Jan Ludvig Andreassen kallar eftir því að áhrif aðgerða í gjaldmiðilsmálum verði skoðuð gaumgæfilega áður en skref séu stigin í þeim efnum.

Hann telur góð og gild rök standa gegn sjálfstæðum gjaldmiðli og líkur hafi aukist á því að norska krónan verði tengd evrunni en bendir á að í þessum efnum sé um stórt skref að ræða. Hann telur tengingu við evru geta haft mikil áhrif á stefnumótun í skattheimtu og ríkisfjármálum.

Fulltrúar ungliðahreyfinga Venstre og Høyre stjórnmálaflokkanna, sem báðir eru hlynntir nánari samvinnu Norðmanna við ESB, telja mikilvægt að umræða um gjaldmiðilsmálin fari fram.

Gengissveiflur hafa gríðarleg áhrif

Í árslok 2022 var markaðsvirði norska Olíusjóðsins 12.429 milljarðar norskra króna.

Ávöxtun af fjárfestingum nam 6.370 milljörðum. 3.994 milljarðar voru framlag frá norska ríkinu og 2.065 milljarðar voru komnir til vegna gengislækkunar norsku krónunnar.

Verðmæti sjóðsins stendur nú í um það bil 14.000 milljörðum.