Björn segir Íslendinga geta fylgt þessu fordæmi: „Hafna dyggða­­sýningum, slaufunar­menningu og kyn­lausum per­­sónu­­forn­öfnum“

Lög­fræðingurinn og pistla­höfundurinn Björn Jón Braga­son segir að einn eftir­tektar­verðasti stjórn­mála­leið­togi álfunnar um þessar mundir sé Markus Söder, for­sætis­ráð­herra Bæjara­lands og leið­togi CSU, systur­flokks Kristi­legra demó­krata, CDU. Þetta skrifar Björn í pistli á DV.is

„Í tali hans kveður við nýjan tón — hann er ó­feiminn við að ræða hreint út um eld­fim mál­efni, svo sem er varða hælis­leit­endur, pólitískan rétt­trúnað og fleira sem flestir borgara­legir stjórn­mála­menn álfunnar veigra sér við að ræða af ótta við for­dæmingu og út­skúfun,“ skrifar Björn um Söder.

„Blaða­maður Welt am Sonntag átti við­tal við Söder fyrir skömmu um stjórn­málin vítt og breitt, meðal annars um mál­efni hælis­leit­enda og flótta­fólks en um þessar mundir dvelja 134 þúsund hælis­leit­endur og flótta­menn í hús­næði á vegum yfir­valda í Bæjara­landi einu, þar af eru 39 þúsund flótta­menn frá Úkraínu.“

„Í máli Söder kom fram að staðan væri orðin þung; Bæjarar vildu að sjálf­sögðu hjálpa og þeir hefðu til að mynda tekið á móti fleiri úkraínskum flótta­mönnum en Frakkar, en nú væri komið að þol­mörkum í mörgum sveitar­fé­lögum. Vanda­málið lægi í sér­reglum (þ. Sonderweg) Þjóð­verja í mála­flokknum, landa­mærin væru mun opnari en í öðrum ríkjum álfunnar og sam­bands­stjórnin í Ber­lín yrði í þessum mála­flokki að vinna nánar með hinum Evrópu­sam­bands­ríkjunum,“ skrifar Björn.

Handan landa­mæranna í suðri situr systur­flokkur CSU, Þjóðar­flokkurinn (þ. Öster­reichische Volk­spar­tei), við völd og þar hefur veru­lega dregið úr komu hælis­leit­enda eftir að gripið var til skipu­legra að­gerða í því efni sem eru bein­línis kallaðar A­syl­bremse.

„Þetta var ekki hvað síst gert til að stemma stigu við smygli á fólki sem er um­fangs­mikil glæpa­starf­semi — í þessu til­felli stunduð frá Túnis annars vegar og Ind­landi hins vegar. Ger­hard Karner, innan­ríkis­ráð­herra Austur­ríkis, lét þess getið ný­verið að harðari að­gerðir í þessu efni lytu ekki hvað síst að því að vernda manns­líf og berjast gegn ó­mann­úð­legum við­skiptum (þ. „Menschen­leben zu schützen und ein menschen­verachtendes Geschäft zu bekämp­fen“).“

„Öðru máli gegnir vita­skuld um inn­flytj­endur sem koma á lög­mætum for­sendum en Markus Söder segir Bæjara­land opið vinnu­fúsum höndum, „Wir in Bayern sagen Ja zu Arbeits­migration,“ eins og hann orðar það. Skrif­finnska tálmi því þó að fólk utan Evrópu­sam­bandsins í at­vinnu­leit fái vega­bréfs­á­ritun til Þýska­lands og þar sé við vinstri­stjórnina í Ber­lín að sakast.“

Björn segir Söder vera afar gagn­rýninn á hug­myndir sem nú eru uppi um að af­nema kröfu um þýsku­kunn­áttu til að öðlast ríkis­borgara­rétt. Ríkis­borgara­réttur sé ekki eins og hver önnur fé­lags­aðild. Honum fylgi viður­hluta­mikil réttindi, sem m.a. kosti fjár­út­lát úr sam­eigin­legum sjóðum, en líka skyldur.

2Ríkis­borgara­réttur feli í sér skuld­bindingu við landið, gildi þess og við tungu­málið (þ. „Das Staatsbürger­recht fußt auf ein­em Be­kenntnis zum Land, zu den Wer­ten des Land­es und zu der Sprache“). Að­lögun inn­flytj­enda muni ekki eiga sér stað nema gerð verði krafa um að þeir læri þýsku.“

„Blaða­maður Welt am Sonntag vísaði til þess í spurningu að Mario Czaja, fram­kvæmda­stjóri CDU, systur­flokks CSU, hefði ný­verið krafist þess að að­eins þýska yrði töluð í þýskum skólum — þar með talið í frí­mínútum. En í við­tali við Welt fyrir skemmstu lýsti Czaja þeirri skoðun sinni að þeir sem ekki hefðu þýsku að móður­máli ættu skil­yrðis­laust að sækja nám­skeið í þýsku og undir­gangast próf í tungu­málinu áður en þeir fengju að setjast á skóla­bekk.“

„Söder svaraði því til að þetta væri ekki vanda­mál í Bæjara­landi en pólitíkin norður í Ber­lín ein­fald­lega önnur; því fari fjarri að inn­flytj­endur gefi upp á bátinn sjálfs­mynd sína við það að þurfa að tala þýsku. Menn hefðu vita­skuld ó­líkan menningar­legan bak­grunn og inn­flytj­endur gætu haldið ýmsum sér­kennum í þeim efnum en í ríkinu þyrftu borgararnir sam­eigin­lega undir­stöðu (þ. gemein­sam­e Basis). Þýsk tunga væri hluti af því.“

„Söder segir Bæjara­land ein­fald­lega öðru­vísi en Ber­lín, Bæjarar hafni dyggða­sýningum, slaufunar­menningu og kyn­lausum per­sónu­forn­öfnum. Þeir vilji heldur ekki prédika yfir borgurunum pólitískan rétt­trúnað. Í Bæjara­landi geti hver sungið með sínu nefi og menn séu frjálsir að tjá sig (þ. „Bei uns darf man es­sen, was man will, sagen und sin­gen, was ein­em gefällt.“). Heimilið og hefðir séu í for­grunni og Bæjarar í senn í takti við tíðar­andann og haldi fast í sið­venjur (þ. „Bayern sind tren­dy und tra­ditionell“). Rót­tæk­lingum í norðrinu sé í nöp við Bæjara­land — því þar hafi sjónar­mið and­stæð vinstri­öfgum sannað gildi sitt — og ekki hvað síst sé þjóð­menningin í há­vegum höfð þar syðra.“

„Kveðið hefur við á­þekkan tón í ræðum Fri­edrich Merz, formanns Kristi­legra demó­krata, systur­flokks CSU. Menn sjá sem er að mál­efni flótta­fólks og hælis­leit­enda eru komin í ó­efni og að taka þurfi á þeim vanda af festu, þýska sé lykillinn að þýsku sam­fé­lagi og ekki megi gefa af­slátt af þeirri kröfu. Eins verði að binda enda á með­virkni borgara­legra afla með pólitískum rétt­trúnaði.“

„Segir mér hugur að miðju- og hægri­menn á Ís­landi geti margt lært af for­ystu kristi­legu flokkanna í Þýska­landi og Austur­ríki,“ skrifar Björn að lokum.