Eins dauði er annars brauð – verslanakeðjur týna tölunni

Bandaríska verslanakeðjan Bed Bath & Beyond (BBBY), sem selur allt til heimilisins, óskaði eftir greiðslustöðvun um helgina en fyrirtækið hefur átt við rekstrarvanda að stríða um langt árabil.

BBBY er ekki eina smásölukeðjan sem lent hefur í hremmingum á undanförnum árum. Greiningardeild UBS-fjárfestingabankans hefur sent frá sér greiningu á smásölumarkaðnum í Bandaríkjunum þar sem fram kemur að húsnæðis- og launakostnaður hefi aukist mjög á undanförnum árum og valdi  smásölufyrirtækjum vaxandi vanda. Ofan á þetta bættist svo Covid-19 faraldurinn sem efldi mjög vefverslun en bitnaði á hefðbundnum verslunum.

Í Bandaríkjunum eru um það bil 940 þúsund verslanir og UBS gerir ráð fyrir að á næstu fjórum árum fækki þeim um 50 þúsund. „Þrátt fyrir að hægt hafi á búðarlokunum síðustu árin gerum við ráð fyrir að þeim fari nú mjög fjölgandi,“ segir Michael Lasser, smásölugreinandi UBS.

Lasser telur að fataverslanir og raftækjaverslanir verði sérstaklega hart úti og að 23 þúsund slíkar muni loka dyrum sínum.

Ástæðuna fyrir yfirvofandi lokunum telur Lasser vera eftirfarandi:

  • Samdráttur í einkaneyslu
  • Takmarkað aðgengi að lánsfé
  • Vöxtur í vefverslun
  • Vaxandi kostnaður við rekstur verslana

Undanfarinn rúman áratug hafa nokkur fyrrum stórveldi í  bandarískri smásölu ýmist lagt upp laupana eða skroppið hressilega saman. Má þar nefna Sports Authority, Circuit City og Linens N‘ Things. Á síðustu árum hafa Sears og Kmart bæst á þennan lista. Ein af öðrum hörfa smásölukeðjur með mikinn fjölda verslana og vefverslun sækir á.

Búðarlokanir geta þó skapað tækifæri að mati Lassers. Á meðan veikari keðjur heltast úr lestinni vænkast hagur þeirra sterkari sem eru öflugar um öll Bandaríkin.

UBS gerir ráð fyrir því að risarnir á bandarískum smásölumarkaði njóti góðs af fækkun verslana hjá öðrum verslanakeðjum.

Lasser hefur reiknað út að ef 50 þúsund búðir loka á næstu fimm árum og meðalsalan í hverri búð er 5,7 milljónir dala (tæplega 800 milljónir króna) opnist smásölumarkaður upp á 285 milljarða Bandaríkjadala (39 þúsund milljarða króna). Hann telur að 26 prósent sölunnar færist á vefinn, sem þýðir að nýr markaður upp á 210 milljarða dala (tæplega 29 þúsund milljarða króna) opnast fyrir öflugar keðjur á borð við Walmart, Home Depot og Costco að mati Lassers.