Sigurvegarar kjarasamninganna

Fari allt á besta veg munu landsmenn geta hrósað sigri vegna nýgerðra kjarasamninga enda er meginmarkmið þeirra að lækka vexti, verðbólgu og greiðslubyrði lána þeirra sem skulda.

Það gildir jafnt um fólk og fyrirtæki sem hafa mátt búa við þungar búsifjar vegna okurvaxta og mikillar verðbólgu sem hefur verið úr takti við það sem gerist í nágrannalöndum okkar sem lifa við aðra gjaldmiðla en íslensku „ofurkrónuna“ sem skaðar almenning í landinu ár eftir ár án þess að stjórnvöld ljái máls á því að ráða bót á. Hér hefur þurft 9,25 prósent stýrivexti á meðan þeir eru um fjögur prósent á Norðurlöndunum og hér er verðbólgan næstum sjö prósent á meðan hún er innan við tvö prósent í Danmörku, svo dæmi sé tekið.

Kjarasamningarnir sem voru undirritaðir í gær lofa góðu og eru sigur fyrir þá sem báru mesta ábyrgð á að ná þeim saman. Greina má farsæl fingraför formanns Samtaka atvinnulífsins, Eyjólfs Árna Rafnssonar, á verkinu ásamt atbeina Vilhjálms Birgissonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur launþega megin. Þá blasir við að nýr ríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson, hefur komið sterkur að verkinu. Hann er greinilega laginn sáttamiðlari og virðist hafa náð trausti samningafólksins.

Furðu vekur að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skyldi velja að skáka sér og félaginu út úr samningaferlinu og skuli nú kyrja kunnuglegt stef verkfallshótana.

Samtök atvinnulífsins geta ekki samið við VR með öðrum hætti en gert var í gær. Annað gæti hleypt öllu í uppnám og mun ekki gerast.

Þá vekur Morgunblaðið í dag máls á því í leiðara að það sé ekki mikill vandi að semja um eitt og annað ef unnt er að senda reikninginn á aðra. Það er svo sem nokkuð til í þessu en engu að síður verður að líta á þetta sem kaldar kveðjur til ríkisstjórnarinnar. Það hefur legið fyrir lengi að stjórnvöld kæmu að lausn kjaramála að uppfylltum vissum forsendum. Ríkissjóður þarf að standa straum af 80 milljörðum yfir fjögurra ára tímabil vegna þess sem lofað var í gær. En ekki má gleyma því að þessi sami ríkissjóður mun einnig fá miklar viðbótartekjur, viðbótarskatta, vegna launahækkana og svo er þess vænst að verðbólga lækki og þar með vextir. Lægra vaxtastig ætti að spara ríkissjóði veruleg útgjöld.

Talsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar komu fram í gær og lögðu áherslu á að ríkið væri að taka á sig þungar byrðar. Fjármálaráðherra sagði að skattar yrðu ekki hækkaðir en nú yrði að spara hjá ríkinu, sýna aukna ráðdeild og mæta auknum útgjöldum með þeim hætti. Einmitt. Þá má vænta þess að ríkið hætti um sinn að eyða skattpeningum þjóðarinnar í margvísleg montverkefni eins og verið hefur á undanförnum misserum. Svo sem eins og að reisa fimm hæða kontór yfir þingmenn og skrifstofu Alþingis, kaupa dýrasta skrifstofuhúsnæði landsins á dýrustu lóð Reykjavíkur fyrir ráðuneyti, eyða tugum milljarða í að skrumskæla Hótel Sögu, breyta gamla Stjórnarráðshúsinu og öðrum byggingum utan um æðstu stjórn ríkisins. Og fjölga opinberum starfsmönnum langt umfram aðra fjölgun á vinnumarkaði. Ef veita á aðhald, eins og fjármálaráðherra réttilega bendir á, þarf að byrja á toppnum til að tillögur ráðherra verði trúverðugar.

Þessi ríkisstjórn hefur fjölgað ráðherrum og ráðuneytum með ærnum tilkostnaði. Væri ekki ráð að byrja aðhaldsaðgerðirnar á því að fækka ráðherrum um tvo og loka tveimur óþörfum ráðuneytum og færa verkefni þeirra til? Hér er vitanlega átt við hið einkennilega ráðuneyti háskólamála o.fl. og félags-og vinnumarkaðsráðuneytið. Hvort þessara óþörfu ráðuneyta um sig kostar milljarða á hverju kjörtímabili.

Kjarni máls er sá að samningarnir frá í gær munu leiða til lækkunar verðbólgu og vaxtalækkunar. Dragi Seðlabanki Íslands enn fæturna við næstu ákvörðun stýrivaxta mun þjóðin rísa upp.

Fólk mun finna fyrir jákvæðum áhrifum og þrýstingur verður á atvinnulífið og opinbera aðila að hækka ekki verð á vörum og þjónustu umfram þau viðmið sem gerð eru í samningunum. Það verður allra hagur að svíkjast þar ekki um.

Einnig má ætla að hlutabréfamarkaður á Íslandi styrkist í framhaldinu, en aukin verðmætasköpun í þjóðfélaginu leiðir til aukinna fjárfestinga og neyslu sem eykur þá skatttekjur ríkis og sveitarfélaga.

Takist fjármálaráðherra að auka ráðdeild í rekstri ríkis og ríkisstofnana er mikið unnið. Þannig mun Þórdís Kolbrún styrkja stöðu sína á hinum pólitíska vettvangi. Til mikils er að vinna.

- Ólafur Arnarson