Útvarpsgjaldið falli niður – Ríkisútvarpið á fjárlög eins og aðrar ríkisstofnanir – engar sérlausnir fyrir Moggann

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nú loks lagt fram frumvarp á Alþingi um talsverðar breytingar á ríkismiðlinum og umhverfi hans. Tillaga þeirra er að hætt verði að leggja á sérstakt útvarpsgjald, Ríkisútvarpið verði ekki lengur opinbert hlutafélag heldur verði það rekið eins og hver önnur ríkisstofnun sem þarf að sækja styrk sinn á fjárlög ár hvert eins og aðrar ríkisstofnanir enda mæla engin skynsamleg rök með því að lagður sé á sérstakur skattur til að reka eina ríkisstofnun frekar en aðrar. Einnig vilja þeir að hömlur verði lagðar á auglýsingasölu Ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpið þyrfti þá að gera grein fyrir sínum áformum árlega og sækja tekjur í fjárlögum eins og til dæmis ríkisstofnanir á borð við Þjóðleikhúsið, Samkeppnisstofnun, Matvælastofnun og Hagstofan, svo einhverjar ríkisstofnanir séu nefndar. Engum hefur sem betur fer enn þá dottið í hug að leggja á þjóðina sérstakan einstaklingsskatt til að reka Þjóðleikhúsið – Þjóðleikhússgjald. Það væri álíka vitlaust og nú viðgengst varðandi útvarpsgjald sem allir einstaklingar yfir 18 ára aldri og öll rekstrarfélög í landinu þurfa að greiða. Fyrir því fyrirkomulagi eru engin boðleg rök í nútímaþjóðfélagi.

Umrædd skattlagning sem skilað er beint til RÚV hefur skekkt alla samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði. Það hefur legið fyrir um áratuga skeið og verið gagnrýnt af sumum stjórnmálaflokkum án þess að þeir hafi neitt aðhafst þegar þeir hafa haft völdin. Oft hefur verið rætt um að heimila RÚV ekki að selja auglýsingar eins og algengt er í nágrannalöndum okkar. Hver menntamálaráðherrann á fætur öðrum hefur heitið því að taka á því ranglæti sem viðgengist hefur en ávallt án nokkurra efnda. Þannig hefur til dæmis núverandi menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, lýst yfir og lofað aðgerðum í bráðum sjö ár en svikið allt. Stjórnmálamönnum virðist vera alveg sama um þá skökku samkeppnisstöðu sem verið hefur á fjölmiðlamarkaði hérlendis um langt árabil. Þeir eru reyndar margir hverjir grunaðir um að vera hræddir við ríkismiðilinn og því valið að hafa hljótt um sig.

Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður frumvarps þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur komið fram í fjölmiðlum vegna þessa og haft uppi stór orð um það ranglæti sem viðgengist hefur um árabil og hvatt til dáða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað um málefni ríkisútvarpsins á nánast öllum landsfundum sínum síðustu fimmtíu árin. Flokkurinn hefur verið við völd á Íslandi í 35 af þessum 50 árum en ekkert aðhafst í málefnum RÚV annað en að leggja blessun sína yfir útþenslu báknsins og viðvarandi rammskakka samkeppnisstöðu á hérlendum fjölmiðlamarkaði, já, og búa til RÚV ohf., en það var auðvitað þegar flokkurinn taldi það mikilvægasta verkefnið á fjölmiðlamarkaði að beita Ríkisútvarpinu til að klekkja á fjölmiðlafyrirtæki sem var í einkaeigu.

Það vekur óneitanlega grunsemdir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins stökkvi fram loksins núna þegar sér fyrir endann á valdatíð vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem flokkurinn hefur stutt með ráðum og dáð og haldið saman í bráðum sjö ár. Ætla má að Sjálfstæðisflokkurinn verði utan stjórnar að loknum næstu þingkosningum. Því er hlaupið til og umrætt frumvarp kynnt núna. Hvers vegna ekki miklu fyrr? Hvers vegna ekki í fyrra, eða fyrir 5 árum eða fyrir 10 árum? Skyldi vera um enn eitt sýndarmennsku útspilið að ræða?

Eða er kjarni þessa máls ef til vill sá að freista þess að bæta stöðu Morgunblaðsins til mikilla muna með niðurfellinga virðisaukaskatts á áskriftir? Þeirri tillögu er lætt inn í frumvarp sjálfstæðismannanna að leggja eigi af virðisaukaskatt sem lagður er á áskriftir. Talið er að fjöldi áskrifenda Morgunblaðsins sé enn þá upp undir tíu þúsund talsins en voru margfalt fleiri áður. Niðurfelling virðisaukaskatts myndi nema mörg hundruð milljónum króna sem ætla má að blaðið reyndi að nýta sér til hagsbóta eins og aðrir áskriftamiðlar. Með því skekktist samkeppnisstaða á fjölmiðlamarkaði gagnvart öllum hinum sem selja ekki áskriftir. Við slíka mismunun yrði að sjálfsögðu ekki unað og má gera ráð fyrir kærum og málaferlum ef til þess kæmi. Sértækar ráðstafanir fyrir Morgunblaðið og fáa aðra verða ekki liðnar.

Full ástæða er jafnan til að gruna Óla Björn Kárason um græsku þegar fjallað er um málefni vina hans, sægreifanna, á Morgunblaðinu.

- Ólafur Arnarson