Alls ekki er víst að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi formaður Vinstri grænna og fráfarandi forsætisráðherra, muni fagna sigri í komandi forsetakosningum. Svo virðist sem hún hafi nálgast það verkefni að reyna vistaskipti af nokkrum valdhroka. Einn mótframbjóðendanna, þjóðþekktur listamaður, kallaði framkomu hennar oflæti. Ekki er hægt að neita því að nokkuð er til í þeirri fullyrðingu. Að stjórnmálamaður sem hefur staðið í eldlínunni og leitt afar óvinsæla ríkisstjórn sem hefur tapað fylgi jafnt og þétt, telji sig geta staðið upp úr sínum valdastóli þegar illa horfir og stigið inn í anna enn hærri valdastól. Þetta virðist vera það sem Katrín ætlar að reyna. Ekki er skrítið þótt einhver nefni oflæti, jafnvel hroka eða valdhroka, að ekki sé nú talað um snobb sem er eiginleiki sem flestu fólki hugnast illa, ekki síst þeim sem telja sig vinstra megin við miðju í stjórnmálum.
Katrín heldur því fram að hún hafi ákveðið sig með skömmum fyrirvara. Það fær vart staðist. Um langa hríð hefur hún leynt og ljóst stefnt á þetta embætti. Hún taldi að Guðni Jóhannesson yrði forseti til ársins 2028 og ætlaði þá að vera tilbúin til starfans. Guðni kom svo öllum í opna skjöldu þegar hann tilkynnti um brottför sína í byrjun þessa árs. Katrín mun hafa mátað sig við embættið árið 2016 en áttað sig á því þá að hún átti enga möguleika.
Katrín Jakobsdóttir er ekki fyrsta manneskjan á Íslandi sem telur að forsetaembættið ætti að ganga í erfðir valdhafanna eða valdastéttarinnar. Þeir sem eru nú á miðjum aldri eða eldri muna dæmin.
Árið 1968 kom til forsetakosninga. Fyrir fram var búist við því að Gunnar Thoroddsen gengi að embættinu vísu. Hann var einn glæsilegasti stjórnmálamaður síðustu aldar, vinsælasti borgarstjóri allra tíma í Reykjavík, fjármálaráðherra og tengdasonur Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta Íslands árin 1952 til 1968. Hann undirbjó forsetakjör sitt með brotthvarfi úr eldlínu stjórnmálanna með því að víkja sem fjármálaráðherra og takast á hendur embætti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Kom svo heim, varði doktorsnafnbót og fór í forsetaframboð.
Leiðin virtist bein og greið. Stórir hópar fólks risu hins vegar upp og sögðu: Valdastéttin í landinu á ekki þetta embætti – fólkið velur forsetann. Þessir aðilar fundu öflugan frambjóðanda, Kristján Eldjárn, sem vann kosningarnar með yfirburðum. Valdastéttin tapaði. Fólkið vann.
Í kosningunum árið 1968 gerðist svipað og árið 1952 þegar Ásgeir Ásgeirsson bar sigur úr býtum. Tveir langöflugustu stjórnmálaflokkar landsins, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, lýstu yfir stuðningi við séra Bjarna Jónsson, dómkirkjuprest. Þrátt fyrir það bar Ásgeir sigurorð af fulltrúa valdsins. Fólkið vann sigur.
Sagan endurtók sig í forsetakosningum árið 1996. Þær valdastéttir sem höfðu ráðið Íslandi í áratugi buðu fram sinn mann, Pétur Hafstein. Hann er mikill ágætismaður, sonur Jóhanns Hafstein, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, eftir að Bjarni Benediktsson féll frá árið 1970. Ekki nóg með það heldur bauð Guðrún Pétursdóttir, frænka Péturs og dóttir Péturs Benediktssonar, sig fram, en hún náði engum stuðningi og dró sig í hlé. Þá hafði framboð hennar skaðað stöðu Péturs Hafsteins nóg til þess að Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti, mörgum að óvörum.
Katrín getur ekki vænst þess að þjóðin sé tilbúin til að kjósa að nýju forseta sem hefur verið í forsvari fyrir Alþýðubandalagið/Vinstri græna. Ólafur Ragnar hitti á þá óskastund að þáverandi valdastétt kom sér ekki saman um einn vænlegan frambjóðanda.
En hvers vegna skyldu landsmenn velja Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta þegar hún stígur nú út úr stjórnmálum og skilur eftir sig ríkisstjórn þar sem hver höndin er upp á móti annarri? Hver eru hennar afrek? Hver er arfleifð Katrínar? Sumir segja að arfleifðin sé engin eða næsta lítil. En hvað gerði hún þó?
- Katrín hélt ríkisstjórn saman í rúm sex ár og var stuðpúði milli freku karlanna í Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Það er vel af sér vikið.
- Ríkisstjórn Katrínar var einungis samstiga um að halda völdum, ráðherrum, embættum, ráðherrabílum og ráðherrabílstjórum og embættum fyrir vildarvini.
- Ríkisstjórn Katrínar einbeitti sér að kyrrstöðu. Og tókst það vel.
- Ríkisstjórn Katrínar skilur við með hræðilegri verðbólgu, 9,25% stýrivöxtum, samfelldum fjárlagahalla ríkissjóðs í 7 ár. Uppnámi í orkumálum og óvissu varðandi útlendinga.
- Katrín ber ábyrgð á vaxandi misrétti í samfélaginu og auknum vanda þeirra sem verst eru staddir. Átti þó VG að gæta hagsmuna þeirra.
- Katrín hverfur nú úr íslenskum stjórnmálum enda er komið gott. Hún hefur lokið sinni vakt eftir 20 ár.
Hver er svo arfleifð Katrínar Jakobsdóttur eftir 20 ár á þingi, þar af rúm 10 ár í ríkisstjórnum?
Hún var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Fáir muna eftir henni í því hlutverki. Arfleifðin frá þeirri ráðherratíð er nánast engin.
Katrín hefur leitt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna í rúm sex ár. Hún hefur verið lagin við að lempa hina flokkana en hins vegar gert það að verkum að alger kyrrstaða hefur ríkt í ýmsum málaflokkum í landinu. Slíkt er ekki boðlegt hjá þjóð sem þarf að þróast fram á veginn eins og okkar ágæta dvergþjóð þarf á að halda.
Þegar á allt er litið er arfleið Katrínar Jakobsdóttur – eftir 20 ár á Alþingi og 10 ár í ríkisstjórn – því miður engin.
Hún skilur við flokk sinn, Vinstri græna, í sárum og við dauðans dyr pólitískt. Hún skilur við ríkisstjórnina í uppnámi og ringulreið.
Síðastliðin 20 ár hefur Katrín Jakobsdóttir fengið ærin tækifæri til að láta gott af sér leiða.
Er ekki nóg komið?
Kjósendur, raunar allir íbúar þessa lands, verðskulda nú góða hvíld frá Vinstri grænum og fyrrverandi formanni þeirra og fráfarandi forsætisráðherra.
- Ólafur Arnarson