Tesla lækkar verð í sjötta sinn á árinu

Tesla lækkaði í gær verð á nokkrum útfærslum Model Y og Model 3 rafbíla í sjötta sinn frá áramótum í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið, sem kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs eftir lokun hlutabréfamarkaða í Bandaríkjunum í dag, lækkaði verð langdrægra og kraftmikilla útfærslna Model Y um 3 þúsund dollara og Model 3, sem er með afturdrifi, lækkar um 2 þúsund dollara, niður í 39.990 dollara.

Tesla hefur lækkað verð grunnútfærslunnar af Model 3 um 11 prósent á árinu og grunnútfærslan af Model Y hefur lækkað um 20 prósent. . Bandaríkjamarkaður er stærsti markaður fyrirtækisins og þar stendur til að herða kröfur til að draga úr skattaívilnunum fyrir rafbíla.

Nýlega lækkaði fyrirtækið einnig verð á bílum í Evrópu, Ísrael og Singapore, sem og í Japan, Ástralíu og Suður-Kóreu. Verðlækkanir hófust í Kína í janúar sem tilraun til að auka eftirspurn neytenda eftir bílunum.

Samt sem áður jókst salan á fyrsta ársfjórðungi einungis um fjögur prósent en á fjórða ársfjórðungi síðasta árs jókst hún um 17,8 prósent.

Greinendur hafa áhyggjur af því að miklar verðlækkanir geti komið illa niður á hagnaðarhlutfalli fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar sínar í Austin í Texas.

Greinendur búast við að sala Tesla fyrirtækisins hafi aukist um 24,2 prósent á fyrsta ársfjórðungi og verði 23,29 milljarðar Bandaríkjadala en vara við því að hagnaður þess hafi dregist saman um 2,4 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Í gær hafði verð hlutabréfa í Tesla hækkað um nær 50 prósent á árinu.