Mögulegt greiðsluþrot Bandaríkjanna strax 1. júní

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hefur tilkynnt Kevin McCarthy, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, bréflega að samkvæmt nýju mati ráðuneytisins sé líklegt að ríkissjóður Bandaríkjanna verði ógreiðslufær í byrjun júní hækki þingið ekki eða felli brot skuldaþak ríkisins.

Talið er líklegt að bréfið, sem var birt síðdegis í gær, skapi ótta um að innan fárra vikna geti greiðslufall Bandaríkjanna haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagskerfi heimsins.

Fram til þessa hafa flestir greinendur áætlað að bandaríski ríkissjóðurinn muni hafa nægt lausafé til að standa við skuldbindingar fram til 15. júní þegar önnur greiðsla áætlaðra skatta bandarískra skattgreiðenda er á gjalddaga og miklir fjármunir streyma í ríkissjóð.

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Í bréfinu útilokar Yellen ekki að lausafé ríkisins endist til 15. júní.

Fyrir helgi var bandaríska alríkisstjórnin með 296,2 milljarða Bandaríkjadala inni á bankareikningi sínum og búist er við að innistæðan hækki eitthvað á næstu dögum áður en hún fer að lækka þar sem enn eru að koma inn greiðslur frá aprílgjalddaga áætlaðra skatta þessa árs.

Greinendur óttast að verði greiðslufall hjá bandarísku alríkisstjórninni muni það valda hruni á mörkuðum og steypa Bandaríkjunum umsvifalaust í djúpa efnahagskreppu sem muni hafa alvarlegar afleiðingar um allan heim.

Ýmsir greinendur telja áhyggjur Yellen um greiðslufall 1. júní ástæðulausar. Margir óttast hins vegar að stefnt geti í vandræði í lok júlí, greiðsluþrot ríkissjóðs sé óhjákvæmilegt þá, náist ekki samningar um hækkun skuldaþaksins.

Í bréfi sínu til forseta fulltrúadeildarinnar lagði fjármálaráðherrann áherslu á að mikilvægt væri að bíða ekki með að hækka skuldaþakið eða fella það úr gildi. Benti hún á að þrátt fyrir að þrátt fyrir að skuldaþakið hafi verið hækkað á síðustu stundu með samningum milli framkvæmdavaldsins og þingsins árið 2011 hafi matsfyrirtækið Standard & Poors engu að síður lækkað lánshæfiseinkunn bandaríska ríkisins vegna þess ástands sem þá stefndi í.

Joe Biden hefur boðað Kevin McCarthy og fleiri leiðtoga þingsins til fundar um skuldaþak Bandaríkjanna.

Búist er við að samningaviðræður um hækkun eða niðurfellingu skuldaþaks alríkisstjórnarinnar hefjist að nýju í næstu viku, en Joe Biden forseti hefur boðað Kevin McCarthy og fleiri leiðtoga þingsins til fundar í Hvíta húsinu næstkomandi þriðjudag.