Kristrún tekur forystu í útlendingamálunum

Málefni innflytjenda eru í algeru öngstræti í meðförum núverandi ríkisstjórnar. Ljóst er að það vantar að setja skýran ramma um innstreymi flóttamanna og erlendra borgara til Íslands. Ekki til þess að koma illa fram við þetta fólk, heldur til að standa þannig að málum að Íslendingar ráði við að taka vel á móti fólkinu. Hömlulaust aðstreymi innflytjenda gengur ekki lengur. Það vantar reglur og ramma. Ríkissjóður ræður ekki við þau útgjöld sem þessu fylgja, engar útgjaldaáætlanir standast og innviðir þjóðarinnar ráða ekki lengur við verkefnið. Það á ekki síst við á sviði heilbrigðismála, menntamála og löggæslu.

Stjórnarflokkarnir eru ósammála um leiðir og lausnir. Hér er um að ræða enn einn málaflokkinn sem Vinstri grænir hafa komist upp með að taka í gíslingu. Þess vegna er vaxandi ólga innan ríkisstjórnarinnar út af þessu máli, eins og reyndar ýmsum fleiri málum. Útlendingamálin snúa einkum að ráðherrum dómsmála og fjármála sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft á sinni könnu nær alveg síðustu ellefu árin. Flokkurinn getur því varla kennt öðrum um hvernig komið er þar sem hann hefur haft forsvar fyrir málaflokknum allan þennan tíma. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er greinilega orðinn mjög uggandi vegna ástandsins og hefur talað skýrt um að koma verði skikk á útstreymi fjár úr ríkissjóði vegna þessa. Hann hefur verið nokkuð harðorður og hafa vinstri menn í Vinstri grænum og Sósíalistaflokknum sent honum kaldar kveðjur vegna þess.

Á sama tíma gerist það að Miðflokkurinn sogar til sín fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, íhaldskjósendur sem telja að ekki sé beitt nægilegri hörku í þessum málum. Bjarni hefur hert nokkuð á málflutningi flokksins að undanförnu til að freista þess að sporna við fylgistapi yfir til Miðflokks. Ekki þyrfti að koma á óvart þó að það bæri árangur.

Það er við þessar aðstæður sem Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, stígur fram og tjáir sig skýrt og skorinort um innflytjendamálin og uppsker mikla athygli. Flokkur hennar hefur mælst með mjög mikla fylgisaukningu í öllum skoðanakönnunum síðustu 14 mánuðina, nú síðast með 30,6 prósent í nýrri Gallupkönnun sem skilaði flokknum meira en tuttugu þingmönnum ef kosningar færu eins og könnunin. Allt bendir til þess að Kristrún muni mynda ríkisstjórn eftir næstu þingkosningar.

Formaður Samfylkingarinnar tók af skarið um að brýnt væri að skerpa á reglum um innstreymi flóttamanna og hælisleitenda. Kristrún segir að ríkissjóður geti ekki staðið undir ótakmörkuðum útgjöldum vegna þessara mála. Það verði að koma reglu á og stöðugu fyrirkomulagi. Þetta er í raun og veru það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað en ekki komið í gegn þrátt fyrir að fara með málaflokkinn í ríkisstjórn í ellefu ár. Á því tímabili hafa átta dómsmálaráðherrar verið við völd og árangurinn er sá sem nú blasir við.

Með þessari stefnumörkun sýnir Kristrún Frostadóttir að hún er ábyrgur stjórnmálamaður sem hugar að því hvernig hún ætlar að reka ríkissjóð sem vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttir mun skilja eftir í sárum – fjárlagahalli í sex ár, skuldasöfnun, útþensla og sukk verða eftirmæli fráfarandi stjórnar. Útlendingamálin verður að leysa. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ráða við það og því er eins gott að þeir sem munu taka við hefji strax undirbúning.

Einhverjir gera sér vonir um að með þessari ábyrgu afstöðu formanns Samfylkingarinnar hafi hún skaðað fylgissókn flokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var með slíkar yfirlýsingar en það stafar sennilega af því að hann óttast að Samfylkingin muni einungis styrkja stöðu sína enn frekar. Einnig hafa heyrst svipaðar hjáróma raddir úr Sjálfstæðisflokknum en þeim fylgir ekki mikill sannfæringarkraftur.

Með yfirlýsingu sinni færir Kristrún Frostadóttir flokk sinn lengra inn á miðjuna og fjarlægist Vinstri græna, Sósíalistaflokkinn og Flokk fólksins. Eftir kosningar mun hún því hafa möguleika á að mynda miðjustjórn eða jafnvel stjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins verði framvindan áfram í samræmi við það sem skoðanakannanir sýna nú. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn er þó fremur ólíklegt því Kristrún hlýtur að skynja þann skýra vilja kjósenda um að nú sé vissulega kominn tími til að hvíla Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græn frá landsstjórninni.

Eða öllu heldur að veita kjósendum kærkomna hvíld frá þessum tveimur valdsæknu flokkum.

- Ólafur Arnarson