Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, er fallinn frá, 94 ára að aldri. Með honum er horfinn af sviðinu einn merkasti Íslendingur liðinnar aldar. Að margra mati voru þrír áhrifamestu menn síðari hluta tuttugustu aldarinnar þeir Halldór Kiljan Laxness, Nóbelsverðlaunahafi, Bjarni heitinn Benediktsson, forsætisráðherra og Matthías Johannessen.
Í Matthíasi sameinaðist með einstökum hætti afkastamikið skáld og ritstjóri Morgunblaðsins í meira en 40 ár, en undir hans forystu varð blaðið stórveldi á íslenskan mælikvarða. Auk þess var Matthías mikill áhrifamaður á bak við tjöldin í Sjálfstæðisflokknum – stjórnmálamaður sem fór aldrei í framboð en naut fyllsta trúnaðar formanna flokksins í hálfa öld og kom þannig á framfæri hugmyndum sínum og skoðunum án þess að það væri opinbert.
Þeir sem þekktu innviði Morgunblaðsins á valdatíma Matthíasar þar vita að hann var helsti hugmyndasmiður blaðsins og á heiðurinn af öllum helstu breytingum sem gerðar voru á blaðinu og færðu það til nútímahátta og betri vegar. Hugur hans var frjór og hann sá lengra fram á veg en samferðamenn hans. Þegar Matthías lét af starfi ritstjóra fyrir aldurs sakir er hann varð sjötugur árið 2000 var upplag blaðsins um 55 þúsund eintök og fjárhagsleg staða rekstrarins traust og örugg.
Eftir að hann hvarf af vettvangi um aldamótin snerist allt til verri vegar hjá útgáfunni, upplag tók að minnka, fyrst hægt en síðar með miklum hraða þannig að nú mun upplag blaðsins vera komið niður í um 10 þúsund eintök þó svo að landsmönnum hafi fjölgað um 40 prósent frá því að upplag Morgunblaðsins náði hámarki um aldamótin. Þótt Morgunblaðið hafi fengið niðurfelldar skuldir hjá ríkisbanka að fjárhæð um 10 milljarðar króna á núverandi verðlagi er útgáfan núna komin upp á náð og miskunn eigenda öflugra sjávarútvegsfyrirtækja sem leggja því til þann fjárhagslega stuðning sem þarf. Tímarnir eru sannarlega breyttir frá velmektarárunum í tíð Matthíasar.
Í ritstjóratíð sinni hélt Matthías úti mjög öflugri menningarumfjöllun, einkum á síðum Lesbókar blaðsins sem kom út vikulega. Óhætt er að fullyrða að Lesbókin hafi haft veruleg áhrif á menningarumræðu í landinu og verið bókaútgáfu og menningarviðburðum sterkur bakhjarl. Þá er mörgum enn í fersku minni hve Reykjavíkurbréfin sem Matthías ritaði voru snjöll og innihaldsrík andstætt því sem tíðkast hefur hin síðari ár hnignunar. Reykjavíkurbréfin voru fjölbreytt og fjölluðu stundum um listir og menningu en ekki síður stjórnmál þar sem horft var yfir sviðið af háum stalli. Einnig átti hann það til að fjalla um viðskiptalífið og atvinnustarfsemi með þeim hætti að eftir var tekið. Þeim var hrósað sem höfðu til þess unnið en fyrir kom að undan gagnrýninni sveið, ekki síst þegar hann beindi athyglinni að leynd og spillingu.
Á þetta ekki síst við þegar Matthías hafði forystu um að lyfta leyndarhjúpi af ýmsu hjá fyrirtækjum sem jafnvel voru skráð á markaði en höfðu komist upp með að sveipa mikilvægar upplýsingar um eignarhald og rekstur leynd sem var fullkomlega óeðlilegt. Vegna harðrar gagnrýni Morgunblaðsins voru loks opinberaðar upplýsingar um eignarhald fyrirtækja eins og Eimskips, Flugleiða og bankanna, svo dæmi séu tekin. Þótti þetta tíðindum sæta því menn höfðu vanist því að Morgunblaðið léti nægja að beina spjótum sínum einungis að Sambandi íslenskra samvinnufélaga og kaupfélögunum. Matthías breytti þeirri stefnu og lét eitt yfir alla ganga hvar í fylkingu sem þeir skipuðu sér.
Til viðbótar við merkan og áhrifaríkan feril ritstjórans var Matthías Johannessen afkastamikið skáld í fjölmarga áratugi. Raunar ekki aðeins afkastamikið skáld, því saman fóru afköst og gæði. Eftir Matthías liggja gersemar í bundnu og óbundnu máli. Hann sendi frá sér ljóðabækur, skáldsögur, viðtalsbækur, leikrit og hugleiðingar. Skrif hans voru mikil vexti og vöktu jafnan mikla athygli og höfðu áhrif með margvíslegum hætti.
Á engan er hallað þó að sagt sé fullum fetum að þessi andans jöfur hafi verið eitt mesta stórmenni síðustu aldar hér á landi. Nú er hann horfinn sjónum en eftir stendur minning um mikilmenni sem markaði djúp spor í samfélagið.
- Ólafur Arnarson.