Værukær núvitund

Það sem af er hagsveiflunni hafa skuldir heimila og fyrirtækja farið hratt lækkandi. Þegar horft er á skuldir heimilanna verður að hafa það í huga að vegna skorts á framboði íbúðarhúsnæðis hefur hluti kynslóðar ekki haft tök á að skuldsetja sig við kaup á því.

Það er í sjálfu sér jákvætt að aukinn hagvöxtur hefur verið nýttur til að lækka skuldir. Opinberir aðilar hafa einnig styrkt fjárhagsstöðu sína og eru í kjörstöðu á seinni hluta lengstu uppsveiflu íslenskrar hagsögu.

Staðan er því góð, en framundan eru miklar fjárfestingar í innviðum og íbúðarhúsnæði. Samkvæmt fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans eru fá hættumerki. Fjármálastofnanir hafa aukið verulega útlán til ferðaþjónustu en fátt virðist benda til annars en að það sé í góðu samræmi við vöxt greinarinnar og hlutfallslega stöðu í hagkerfinu.

Efnahagsstaðan hefur sjaldan verið betri og jafnvægi í flestum þáttum hagkerfsisins. Hagsveiflur ná venjulega lokapunkti sínum þegar bjartsýni er mikil og trú á að hægt sé að eyða fjármunum sem ekki eru til. Þá vex lántaka í ofurtrú á að eignaverð vaxi áfram. Ræturnar liggja venjulega í hækkun fasteigna þar sem myndast bóla. Krónan ofrís og þegar blikur eru á lofti hverfur trúin á ævintýrið og allt fer niður með tilheyrandi falli krónunnar og verðbólgu í kjölfarið.

Við ættum að þekkja þessa sögu of vel til þess að láta blekkjast af fagurgala þeirra sem lofa öllu fyrir alla. Enda þótt réttilega sé bent á það í Fjármálastöðuleikariti Seðlabankans að enn eru engin teikn um niðursveiflu, þá er það gömul saga og ný að slíkt sjá menn venjulega eftirá.

Við höfum reynslu af því að íslenska krónan er sjálfstæður sveifluvaldur og stuðlar auk þess að hærri raunvöxtum hér en í nágrannaríkjum sem búa við stærri gjaldmiðla og aga Evrópusambandsins. Meðan veislan stendur sem hæst vilja fáir ræða hvað er okkur fyrir bestu til framtíðar. Þar ræður og mun væntanlega ráða ríkjum værukær núvitund, þangað til sagan endurtekur sig.