Hverjum gagnast krónan?

 

Sveiflur á gegni krónunnar hafa verið umtalsverðar undanfarnar vikur frá því að helstu hindrunum í gjaldeyrisviðskiptum var rutt úr vegi. Ennþá er mikill afgangur af viðskiptum við útlönd og þjónustujöfnuður gerir miklu meira en að vega upp á móti vöruskiptahallanum. Íslendingar endurnýja bíla sína og ýmis dýrari heimilistæki af miklum móð, enda vanir að neyta á meðan á nefinu stendur.

Undirliggjandi þættir eru til þess fallnir að styðja við og jafnvel styrkja gengi krónunnar, en fjármagnsflutingar hafa veikt hana að undanförnu. Það er í sjálfu sér jákvætt að hik kom á samfellda stryrkingu krónunnar undanfarin misseri, enda farin að valda útflutnings- og samkeppnisgreinum talsverðum erfiðleikum. Auk þess að leggja sitt af mörkum til að tryggja þjóðinni forða upp á 1300 tonn af lambakjöti. Sem er jákvætt fyrir þá sem trúa á jólasveininn og að eitthvað sé til sem heitir matvælaöryggi.

Allar greinar atvinnulífsins voru farnar að kveinka sér undan styrkingunni meira að segja ferðaþjónustan, en vöxtur greinarinnar er höfuðástæða styrkingarinnar. Dægursveiflan undanfarið er ekki til að auka þægindi þeirra sem þurfa að eiga viðskipti við útlönd og streitast við að gera sæmilega skynsamlegar áætlanir.

Töluvert er síðan sjávarútvegur á Íslandi flýði krónuna þar sem þess var kostur. Eftir sat reyndar landvinnslan sem glímir við kostnaðarhækkun og lægra verð í krónum talið. Rekstur sem var hagkvæmur þegar krónan sleikti botnin er í bullandi tapi nú þegar hún fer með himinskautum. Sveiflurnar í gjaldmiðlinum gera það að verkum erfitt er að gera langtímaáætlanir í rekstri og slíkt efnahagsumhverfi hentar afar illa nýsköpun sem byggir á menntun og þekkingu. Það er alvarlegt þar sem uppbygging þekkingarfyrirtækja er besta leiðin til lengri tíma til að tryggja góð lífskjör til lengri tíma.

Hverjum gagnast þá krónan? Til lengdar gagnast hún ekki atvinnulífinu ekki einu sinni atvinnugreinum sem rísa á afturlappirnar í skammtímabaráttu sinni fyrir því að fá að hagnast á sveiflum hennar. Hún gagnast ekki almenningi í landinu nema um stundarsakir. Hún er sjálfstæður sveifluvaki sem lagði sitt þunga lóð á vogarskálar ofris fjármálakerfsisins sem endaði með falli þess. Tilvist hennar hjálpaði að einhverju leyti við að deila út bakreikningnum af áfallinu til allra þeirra sem áttu eignir eða höfðu tekjur í gjaldmiðlinum.

Hverjir eru þá eftir sem hafa hag af óbreyttu ástandi? Kannski má finna einn og einn eitursnjallan spákaupmann sem er flinkari en aðrir að sjá fyrir gengissveiflurnar. Hinn hópurinn sem gæti haft hag af núverandi gjaldmiðli eru værukærir stjórnmálamenn sem eyða um efni fram og smyrja svo reikningnum út á landsmenn með verðbólgu sem enginn fær flúið nema þeir sem hafa komið eignum sínum tryggilega fyrir erlendis.

Krónan þjónar því fyrst og fremst stundarhagsmunum en rýrir lífskjör og afkomu til lengri tíma. Hver vill það?

 

Hafliði helgason