Frá miðju til óreiðu

 

Of snemmt er að segja til um hvaða landslag muni blasa við í stjórnmálunum eftir kosningar. Margt bendir þó til þess að miðjan í pólitíkinni sé að gefa eftir og jaðarhugmyndir hafi meiri hljómgrunn meðal kjósenda en áður.

Miðjan í stjórnmálum hefur í áranna rás haft mikil áhrif á þróun samfélagsins. Miðjan hefur gætt þess í hægri stjórnum að félagsleg sjónarmið hafi vægi og í vinstri stjórnum hefur miðjan tryggt að að markaðskraftar atvinnulífsins virki og tryggi verðmætasköpn í samfélaginu til að standa straum af kostnaði við velferðarkerfið.

Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru lengst af í þessu hlutverki. Framsóknarflokkurinn féll vel að íhaldsöflum bæði til vinstri og hægri meðan Alþýðuflokkurinn var frjálslyndur varðandi tollamál og alþjóðaviðskipti. Ávinning samfélagsins af EES samningnum má að mestu leyti þakka Alþýðuflokknum.

Viðreisn og Björt framtíð hafa tekið  stöðu Alþýðuflokksins í litrófi stjórmála dagsins í dag. Viðreisnarnafnið er beinlínis sótt til stjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem fór fyrir miklum frjálsræðis og efnahagsubótum á sjöunda áratugnum. Samfylkingin er í huga kjósenda orðinn hreinn vinstri flokkur með litla sem enga skýrskotun inn á miðjuna.

Staða þessara flokka er samkvæmt könnunum afar veik í augnablikinu og veik staða miðjunnar minnkar líkur á að hægt sé að mynda starfhæfa meirihlutastjórn eftir kosningar. Draumur afla innan Sjálfstæðisflokksins um samstarf við VG er ekki raunhæfur. Þrátt fyrir íhaldsamt eðli beggja flokka mun grasrót VG ekki hafa þol fyrir því samstarfi. Bakland Bjartrar framtíðar átti nógu erfitt með það, hvað þá bakland VG í þéttbýlinu. Framsóknaríhaldsöfl VG á landsbyggðinni eru meira en fús, en það nægir ekki.

Margt bendir til þess nú að kosningar munu litlu skila öðru en enn meiri óvissu og glundroða. Það er auðvitað slæmt fyrir þá sem vilja stöðugleika og hófsama uppbyggingu í anda hinnar varkáru miðju. Slagorð og órökstuddar upphrópanir eiga greiðari leið að kjósendum en varkár umræða. Hér gæti því orðið nokkur óreiða á næsta kjörtímabii. Þá er ágætt að hafa í huga að í heimsmynd  Forn- Grikkja varð hinn skipulegi heimu, Kosmos, til úr óreiðunni, Kaos. Það versta við óreiðuna er að hún getur átt eftir að reynast okkur dýr.