Forysta sjálfstæðisflokksins ber ábyrgðina

Þing sem byrjaði á tíðindalitlu fjárlagafrumvarpi hefur skyndilega snúist upp í óvissudrama. Ríkisstjórnin er sprungin og grunnástæða þess er hve seinn til náms forystuflokkur stjórnarinnar er. Eftir fall fjármálakerfissins 2008 hefur krafa almennings á Íslandi verið opnari stjórnsýsla og upplýsingagjöf. 

Samstarfsflokkar sjáfstæðismanna hafa verið á þessari línu og birting ríkisreiknings á netinu er dæmi um skref í rétta átt. Í landinu hafa verið í gildi um langt skeið upplýsingalög sem veita fjölmiðlum og borgurum býsna mikinn og eðlilegan rétt til upplýsinga um málefni þeirra eigin ríkis og meðferð þeirra eigin skattpeninga.

Allt er þetta til bóta. Ástæða falls stjórnarinnar er augljóslega ekki ábyrgðarleysi Bjartrar framtíðar, eins og dómsmálaráðherra lætur í veðri vaka. Þar verður Sigríður Andersen að líta sér nær. Ástæðan er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ennþá lært að nær allir feluleikir enda með því að einhver hrópar: Fundinn!

Viðbrögð almennings við uppljóstrun um undirskrift föður forsætisráðherra á meðmælabréf fyrir mann sem misnotaði stjúpdóttur um árabil eru eðlilega tilfinningaþrungin. Sjálfur er ég ekki trúaður á annað en að baki hafi búið vanhugsuð velvild og umræða um einhvers konar stærra samsæri sé komin langt fram úr tilefninu. Það breytir hins vegar ekki því að fara verður fram ítarleg rannsókn á öllu því sem lítur að þessu máli, þannig að ekki sitji eftir eitt rykkorn tortryggni.

Það er auðvitað gömul klisja úr almannatengslafræðunum að það séu ekki mistökin sem menn gera sem felli þá, heldur viðbrögðin við þeim. Fall stjórnarinnar er ekki samstarfsflokkunum að kenna. Röng viðbrögð dómsmálaráðherra eru lykillinn að því hvernig fór og forysta Sjálfstæsflokksins verður að axla sína ábyrgð á því. Mál Hönnu Birnu átti að hafa kennt flokknum að tími þess að kjafta sig út úr erfiðum málum með hjálp Morgunblaðsins er liðinn.