Með lögum skal lamb tyggja

Með lögum skal lamb tyggja, var fyrirsögn greinar sem Guðmundur Einarsson, þá þingmaður Bandalags jafnaðarmanna skrifaði á níunda áratugnum. Efni greinarinnar var gagnrýni á þann ógnar kostnað sem skattgreiðendur þurfa að greiða vegna sauðfjárræktar í landinu. 

Sú umræða sem nú er um landbúnaðarkerfið og framlag skattborgara til þess er ekki ný af nálinni. Vandi sauðfjárræktar hefur verið nokkurn veginn sá sami í áratugi. Ævinlega hefur gengið jafn illa að sannfæra útlendinga um það að lambakjötið sé lúxusfæða og nýjar kynslóðir taka kjúkling og pizzu með pepperoni fram yfir heiðarlambið.

Sú stífa hagsmunagæsla sem bændur hafa notið í gegnum misvægi atkvæða hefur ekki orðið þeim til neinnar gæfu. Þvert á móti má velta því fyrir sér hvort hún hafi ekki einmitt leitt til stöðnunar í greininni. Hagræðingarkrafa sem er eðlileg í síbreytilegum heimi og atvinnurekstur þarf almennt að búa við, hefur að mestu verið sleginn út af borðinu með byggðarökum og kröfu um vernd bænda fyrir samkeppni. 

Niðurstaðan er að samkvæmt fréttum eru birgðir af lambakjöti 1300 tonn og eina leiðin sem fyrr til að minnka birgðirnar er að selja ríkum nágrannaþjóðum kjötið á niðurgreiddu verði. Með reglulegu millibili hafa Íslendingar búsettir erlendis getað keypt helgarsteikina ódýrt með meðgjöf frá löndum sínum sem greiða skatta á Íslandi. 

Þetta leiðir auðvitað hugann að því hverju þvermóðskuleg hagsmunagæsla skilar og mættu fleiri svo sem sjávarútvegurinn taka til sín. Til að allrar sanngirni sé gætt, þá hefur frjálst framsal aflaheimilda leitt til mikillar hagræðingar og vörustýringar sem skilar sér í margfallt betri afkomu. Þar snýst málið um að ef sjávarútvegurinn hefði strax leitað sanngjarnrar lausnar varðandi aðgang að auðlindinni, þá væri málefnastaðan mun betri. 

Ekki er hægt að verja núverandi offramleiðslu á lambakjöti. Bændaforystann og fulltrúar þeirra á alþíngi ber meiri ábyrgð á því að staða bænda er jafn slæm og raun ber vitni. Að tefla fram ungum bændum sem eru að gefast upp til að klekkja á stjórnvöldum sem reyna að taka á vandanum og koma smá viti í kerfið jaðrar við ósvífni. Þegar frá er talin sú beit sem landið þolir getur markaðurinn einn ákveðið hversu mikið á að framleiða af lambakjöti. Miðstýrt kerfi sem verndar framleiðendur gegn veruleika eftirspurnarinnar getur aldrei leitt til annars en óskapnaðar. 

Landbúnaðarráðherra hefur sýnt meiri sanngirni í leit að lausn þessa vandamáls en hægt er að krefjast frá hendi bænda. Nú er komið að þeim að horfast í augu við þá staðreynd að neytendur vilja ekki vöru þeirra í þeim mæli sem þeir framleiða. Til að bregðast við því eru bara tvær leiðir. Lækka verð eða draga úr framleiðslu. Við það þarf önnur atvinnustarfsemi í landinu að búa.

Nema að menn vilji skylda landsmenn til að eta umframbirgðirnar undir slagorðinu: Með lögum skal lamb tyggja.