Sigrar varla friðinn

Sigrar varla friðinn

Miðað við fyrstu skoðanakannanir sem birst hafa eftir að Sigmundur Davíð ákvað að kveðja Framsóknarflokkinn eru ekki miklar líkur á að hann höggvi stór skörð í önnur framboð en Framsóknarflokkinn. Fyrstu kannanir  klofningsframboða sterkra stjórnmála manna hafa sögulega sýnt talsverða hreyfingu kjósenda til þeirra umfram fylgis þess flokks sem var yfirgefinn. Þannig náði Albert Guðmundsson útfyrir Sjálfstæðisflokkinn og Jóhanna Sigurðardóttir var með um 25% fylgi í fyrstu könnunum eftir að hún klauf sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka. Framboð Sigmundar Daviðs nú virðist staðfesta að mestu þann klofning sem birtist við formannskjör í Framsóknarflokknum og sýndi tvær nokkuð jafnstórar fylkingar. Það hljóta að vera Sigmundi Davið og stuðningsfólki hans nokkur vonbrigði að skírskota ekki til breiðari hóps.

Hefðbundið er að klofningsframboð sigi niður á við frá fyrstu könnunum fram að kosningum.  Enda þótt sagan hafi tilhneigingu til að endurtaka sig er rétt að slá þann varnagla að hún gerir það ekki alltaf. Hugsanlegt er að Miðflokkurinn geti sótt eitthvert fylgi frá Sjálfstæðisflokknum ef draga má ályktun af því að ritstjóri Morgunblaðsins hefur á Sigmundi Davið meiri mætur en eftirmanni sínum á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn mun efalítið leika sama leik og síðast og ná til sín kjósendum á lokametrunum með því að ala á óttanum við vinstri stjórn.

Efalítið mun Miðflokkurinn reyna að sækja fylgi til þeirra sem nú gefa sig upp sem kjósendur Flokks fólksins. Þar kann að vera á brattann að sækja. Þrátt fyrir að sá flokkur hafi ekki enn sýnt neinar skynsamlegar útfærslur á því hvernig hann hyggst rétta hlut aldraðra og öryrkja, þá eru fulltrúar hans trúverðugri talsmenn þess hóps en Sigmundur Davíð.

Enginn ástæða er til að efast um pólitísk klókindi og hugkvæmni Sigmundar Daviðs. Hann er hins vegar af þeirri gerð stjórnmálamanna sem þolir illa friðinn. Margfalt hæfari stjórmálamaður, Winston Churchill, sem leiddi þjóð sína gegnum heila heimstyrjöld mátti þola höfnun þegar friður var kominn á. Það sem brennur á mörgum kjósendum nú er að rétta hlut hóps sem ekki hefur enn fengið fullan aðgang að hagvexti síðustu ára. Annað stríð er ekki sjáanlegt í bráð og í því standa aðrir sterkar að vígi. Sú staðreynd kann að reynast átakastjórnmálamanninum erfiður hjalli í komandi kosningum.