Svakalegt atvik á hálendinu: Göngumaður meðvitundarlaus af kulda og leiðsögumaðurinn vissi ekki hvað hann átti að gera

Jakob S. Jónsson, stjórnarmaður í nýstofnuðu Félagi ökuleiðsögumanna, skrifaði áhugaverða grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag, en hann vill vekja athygli stjórnvalda og almennings á mikilvægi vandaðrar og faglegrar ferðaþjónustu.

Ástæðan er atvik sem rataði í fjölmiðla á dögunum.

„Í viðtali í Sumarmálum Ríkisútvarpsins á Rás 1 við fjallaleiðsögumanninn Hjalta Björnsson mátti heyra um hrakfarir hóps erlendra ferðamanna nálægt Landmannalaugum. Hópurinn hafði ætlað sér í gönguferð um fagurt og hrífandi hálendið, þegar veður gerðist vont og kalt, augljóslega erlendum leiðsögumanni hópsins að óvörum.“

Þetta skrifar Jakob, sem í kjölfarið segir frá þessu atviki. Hann vill meina að umræddur leiðsögumaður sé ekki hæfur, en einn ferðamannanna var orðinn meðvitundarlaus af kulda og voru það íslenskir fjallaleiðsögumenn sem komu til bjargar.

„En ekki var nóg að hinn erlendi leiðsögumaður léti veðrið koma sér á óvart – vegna vanþekkingar og reynsluleysis var hann á engan hátt undir það búinn að leiða hóp um hálendið. Fólkið í hópnum hans var illa búið og vanbúið, einn ferðamannanna orðinn meðvitundarlaus af kulda, en snör viðbrögð íslenskra fjallaleiðsögumanna urðu til þess að ekki fór verr. Hinn erlendi leiðsögumaður – ef leiðsögumann skyldi kalla! – var hjálparlaus og ekki fær um að sinna því fólki sem hann bar ábyrgð á.

Hvenær ætla íslensk stjórnvöld að marka sér stefnu í ferðamálum þannig að gerðar verði þær lágmarkskröfur til ferðaþjónustufyrirtækja að þau leiki sér ekki að því að stofna öryggi ferðamanna í voða með því að ráða til starfa leiðsögumenn sem fara um hálendi Íslands án þess að þekkja til aðstæðna eins og þær geta verstar gerst, jafnvel á sólríkum sumardegi?“

Að lokum segir Jakob að nú sé kominn tími á að stjórnvöld geri eitthvað í málinu. Hann vill að leiðsögumenn sem starfi hér á landi hafi stundað nám leiðsögumanna með séríslenskar aðstæður í huga.

„Sögur af hrakförum erlendra ferðamanna rata reglulega í fjölmiðla. En það er tími til kominn að stjórnvöld gyrði sig í brók og móti stefnu um öryggi ferðamanna á Íslandi. Sú stefna verður að byggja á faglegri þekkingu og reynslu, sem aðeins fæst með því að gengið verði frá viðurkenningu á Evrópustaðli um nám leiðsögumanna að viðbættum séríslenskum þáttum sem varða öryggismál, náttúruvernd og neytendavernd.“

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.