Uppreist æru eða upplausn hinna ærðu

Forsetaframboð Davíðs Oddssonar & Hannesar Hólmsteins er á góðri leið með að verða mesta sneypuför síðustu áratuga í opinberu lífi á Íslandi.

Bent hefur verið á að Davíð er frambjóðandi Hannesar og sægreifanna sem eiga Morgunblaðið. Fáum dylst að málflutningur Davíðs hefur hingað til talsvert byggst á sagnfræðilegu grúski úr smiðju Hannesar Hólmsteins sem gengur út á að finna eitthvað sem þeir halda að geti skaðað Guðna Th. Jóhannesson sem mælist ítrekað með 60% stuðning í skoðanakönnunum. Það hefur svo komið fram á samfélagsmiðlunum þar sem Hannes fer hamförum að hann virðist hafa miklu meiri áhuga á þessu vonlausa verkefni en Davíð sjálfur. Því er óhætt að tala um forsetaframboð Davíðs & Hannesar. Væri ekki tilvalið að skipa Hannes forsetaritara ef þeir hafa sigur?

Tengslin við Morgunblaðið og eigendur þess, sægreifana, eru einnig augljós. Blaðið hefur verið notað í grímulausum áróðri gegn Guðna eins og nú í vikunni þegar blaðið var í aldreifingu sem kallað er. Þá var upplag blaðsins nær 100 þúsund í stað þeirra 17 þúsund eintaka sem blaðið er prentað í að jafnaði. Í því tölublaði var ráðist með einkar ósvífnum hætti að Guðna Th. Árásir Davíðs og náhirðar hans hafa ekki haft meiri áhrif en svo að nú mælist hann einungis með 18,5% stuðning á meðan Guðni er með 60,4% eins og fram kom í Fréttablaðinu þann 31. mai en sú skoðanakönnun var unnin kvöldið áður.

Tengslin við Morgnblaðið og sægreifana eru einnig mjög augljós þegar litið er á skipan stjórnar framboðsins. Ari Edwald á þar sæti en hann er forstjóri Mjólkursamsölunnar. Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki er formaður stjórnar MS og sá sem réði því að Ari fékk þessa forstjórastöðu í fyrra eftir að hafa verið rekinn frá 365 miðlum. Kaupfélagið er þriðji stærsti hluthafinn í Morgunblaðinu og Þórólfur er náfrændi og vinur Davíðs Oddssonar. Hermt er að þeir talist við í síma felsta daga og plotti um menn og málefni, einkum þau sem snúa að Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Þeir eru skuggastjórnendur í sínum flokkum. Í stjórn framboðsins er einnig Erla Gunnlaugsdóttir. Hún er dóttir Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar sem er fulltrúi Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum en hún er stærsti hluthafi Morgunblaðsins. Þriðji fulltrúinn í framboðsstjórninni er Eyþór Arnalds, sem frægur var fyrir glímu sína við ljósastaur á Kleppsvegi. Hann er í ýmsu snatti fyrir Sjálfstæðisflokkinn eins og að gegna formennsku í Þjóðleikhúsráði. Hann var auk þess fenginn til að gera skýrslu um RÚV sem ætlað var að leggja drög að endalokum þeirrar stofnunar.

Davíð Oddsson var niðurlægður þegar honum var sparkað úr bankastjórastöðu í seðlabankanum vorið 2009  eftir að hafa sett bankann á hausinn upp á 300 milljarða króna. Síðan hefur hann leitað leiða til að fá uppreist æru. Eftir mikla yfirlegu var það niðurstaðan að sækjast eftir embætti forseta til þess að freista þess að komast á stall að nýju eftir þann sára ósigur sem endalok ferils hans í seðalbankanum var.

Hann og stuðningsmenn héldu að þeir gætu rutt öllum andstæðingum úr vegi eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hyrfi af sviðinu. En þar misreiknuðu þeir sig herfilega. Guðni Th. nýtur yfirburðafylgis og heldur ró sinni í kosningabaráttunni meðan Davíð spriklar eins og hauslaus hæna.

Framkoma Davíðs Oddssonar og hans nánustu einkennist af upplausn hinna ærðu sem sjá að leikurinn er tapaður.