Sigurður Kári styður aukið sjóðasukk – „Þjóðarsjóður“ skapar engin ný verðmæti

Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands, hefur nú stigið fram í fjölmiðlum og dustað rykið af gamalli hugmynd um stofnun Þjóðarsjóðs. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur hreyft þessari hugmynd ítrekað á undanförnum árum án þess að það hafi haft áhrif.

Í blaðagrein nú í vikunni fjallar Sigurður Kári um hamfarirnar við Grindavík og þau áhrif sem þær muni hafa á Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Síðan segir hann: „Hamfarirnar ættu líka að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar um mikilvægi þess að fyrir hendi sé varasjóður, sem nefndur hefur verið Þjóðarsjóður, sem nýta má þegar tjón verður sem hvorki hefðbundnar vátryggingar né náttúruhamfaratryggingar bæta.“

Síðan segir hann að nauðsyn svona sjóðs blasi við „í stað þess að fjármagna úr ríkissjóði eða með sértækri skattheimtu.“ Seinna segir Sigurður Kári um slíkan sjóð: „Hann mætti fjármagna með afrakstri af sameiginlegum náttúruauðlindum okkar, t.d. arðgreiðslum frá Landsvirkjun eða öðrum ábata af nýtingu auðlindanna.“

Hér er á ferðinni nákvæmlega sama hugmyndin og Bjarni Benediktsson hefur talað fyrir um árabil án þess að hún hafi hlotið hljómgrunn. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að jafnan er bent á að þarna er á ferðinni hugmynd sem skilaði engu ef henni yrði hrint í framkvæmd. Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkissjóðs sem fær mjög myndarlegan arð greiddan af starfsemi fyrirtækisins á hverju ári. Þær greiðslur renna beint í ríkissjóð og nýtast ríkinu til að standa straum af almennum rekstrarkostnaði. Ef þeir milljarðatugir sem renna þannig í ríkissjóð yrðu teknir til annara þarfa, t.d. lagðir í sjóð, þá minnkuðu árlegar tekjur ríkissjóðs um sömu fjárhæð. Það hefði einungis í för með sér að hallinn á rekstri ríkissjóðs ykist sem því nemur. Ríkissjóður hefur nú verið rekinn með verulegum halla í sex ár í röð.

Ef þær aðstæður koma upp í þjóðfélaginu að hið opinbera þurfi að taka á sig tjón vegna hamfara, hvort heldur er vegna eldgosa, jarðskjálfta, snjóflóða eða annars, þá mun engu breyta hvort fjármunirnir renna beint úr ríkissjóði eða úr sjóði sem stofnaður hefur verið með því að færa öruggar tekjur frá ríkissjóði og auka þannig hallann eins og hér er bent á.

Þetta hljóta allir að sjá. Það blasir einmitt við að afkoma ríkissjóðs versnar um milljarðatugi á ári ef arðurinn af Landsvirkjun nýtist ekki við rekstur ríkisins en verður þess í stað frystur í sérstökum sjóði sem nýttur yrði þegar þörf krefði.

Hér er einungis um færslur milli debet og kredit að ræða sem Sigurður Kári ætti að skilja mæta vel, Verslunarskólagenginn maðurinn. En hvað gengur honum þá til?

Í gegnum tíðina hafa sjálfstæðismenn oftast varað við „sjóðasukki“ vinstri flokkanna. Yngri forystumenn flokksins á hverjum tíma hafa jafnan verið fremstir í flokki þeirra sem varað hafa við. Þetta hlýtur Sigurður Kári að muna sem fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hins vega hefur þess orðið vart í seinni tíð að svo virðist sem núverandi talsmenn flokksins hafi misst sjónar á mikilvægi þess að hamla gegn „sjóðasukki“. Það er miður og ætti að vera flokksmönnum umhugsunarefni.

Ef stofnaður yrði Þjóðarsjóður missti ríkissjóður fastar árlegar tekjur sem nema tugum milljarða króna. Bæta þyrfti ríkissjóði þann missi með hækkuðum sköttum eða niðurskurði því varla er unnt að auka viðvarandi hallarekstur enn frekar en orðið hefur á síðustu sex árum. Nýr sjóður kallaði á umfang. Skipa þyrfti vel launaða stjórn yfir sjóðinn, ráða starfsmenn og sérfræðinga til að gæta að ávöxtun fjármunanna og ráða fólk til að annast útdeilingu styrkja þegar og ef á þyrfti að halda. Væntanlega yrðu einhverjir flokkshollir menn tilkippilegir að taka sæti í slíkri stjórn. Ekki hvað síst að veita henni forystu!

Hljótt hefur verið um Sigurð Kára Kristjánsson hin síðari ár þar til hann kemur nú fram í sviðsljósið sem formaður Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Sigurður sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 2003 til 2009 en féll í kosningunum eftir bankahrunið. Hann gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum eins og stöðu forseta Nemendafélags Verslunarskóla Íslands, var formaður Orators hjá laganemum, fulltrúi stúdenta í háskólaráði HÍ, í stjórn Heimdallar og formaður SUS. Hann hefur einnig átt sæti í stjórn Heimssýnar sem er áhugamannafélag þeirra sem vilja einangra Ísland sem mest frá umheiminum. Meðal félaga hans í þeirri stjórn hafa verið Vigdís Hauksdóttir, Jón Bjarnason, Ragnar heitinn Arnalds, Guðni Ágústsson og Hjörleifur Guttormsson.

Sigurður Kári hefur því allan bakgrunn til að gera tilkall til þess að komast á ný í fremstu röð forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Það gæti skýrt einkennilega liðveislu hans við þessa gömlu og misheppnuðu hugmynd formanns flokksins.

- Ólafur Arnarson