Vonandi verður Guðni forseti áfram – mikilvægt að halda stjórnmálamönnum utan við embættið

Í prýðilegu viðtali, sem Heimir Már Pétursson átti við Frú Vigdísi Finnbogadóttur nýlega og endursýnt var um jólin á Stöð 2, kom margt athyglisvert fram sem vert er að staldra við. Heimir ræddi meðal annars við hana um þann möguleika sem forseti hefur til að neita að staðfesta lög sem Alþingi hefur samþykkt.

Frú Vigdís ræddi um þau tilvik sem komu upp á 16 ára forsetaferli hennar þar sem lagt var að henni að neita staðfestingu laga. Hún beitti því valdi aldrei og sagði að hún teldi óheppilegt að forseti grípi þannig inn í það sem meirihluti réttkjörins Alþingis hafi ákveðið. Hún lagði einnig áherslu á hve mikilvægt væri að forsetinn gæti haldið sig utan við pólitísk átök til þess að geta gegnt hlutverki sínu á trúverðugan hátt.

Þegar hún var spurð hvort hún væri sannfærð um mikilvægi embættisins, hvort það væri nauðsynlegt fyrir þjóðina af hafa forseta, þá svaraði frú Vigdís því með afgerandi hætti að hún teldi embættið mikilvægt og nauðsynlegt: „Það skiptir máli að hafa einhvern sem er fyrir utan stjórnmálin,“ sagði hún.

Þessi afstaða frú Vigdísar Finnbogadóttur er mikilvæg og gott að þetta hafi komið svona skýrt fram í viðtali Stöðvar 2 við hana. Eftirmaður hennar í embætti, Ólafur Ragnar Grímsson, notaði neitunarvald forseta í þrígang og olli það talsverðri sundrungu í samfélaginu. Þær ákvarðanir urðu sannarlega ekki til að efla það hlutverk embættisins að forsetinn eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Því verður ekki við komið samtímis að auka sundrungu og vera sameiningartákn.

Hér skal tekið undir það að máli skipti að hafa í embætti forseta einhvern sem stendur fyrir utan stjórnmálin. Reynslan af veru fyrrum stjórnmálamanna í embætti forseta ætti að kenna kjósendum að velja ekki að nýju fyrrum stjórnmálamenn til embættisins. Reynslan af ópólitískum forsetum er miklu betri.

Því skulum við vona að Guðni Th. Jóhannesson gefi kost á sér til áframhaldandi setu í embætti forseta en von er á yfirlýsingu frá honum í nýársávarpi hans næsta mánudag.

Forsetaferill Guðna er glæsilegur og hann nýtur stuðnings og velvilja þorra landsmanna. Hann hefur reynst vera kjölfesta okkar á erfiðum tímum.

- Ólafur Arnarson