Píslarganga borgarstjóraefna Sjálfstæðisflokksins í 30 ár – er röðin ekki komin að Kjartani?

Frumhlaup Hildar Björnsdóttur, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, fyrir helgi þegar hún fullyrti að Dagur B.Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, væri á tvöföldum launum, sem er rangt og hefur verið rekið ofan í hana, minnir okkur á að píslarganga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn á 30 ára afmæli um þessar mundir.

Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin í Reykjavík þegar Reykjavíkurlistinn varð til árið 1994 og hefur tapað öllum kosningum í borginni síðan, ef frá eru taldar kosningarnar árið 2006 þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiddi listann, myndaði meirihluta með Framsókn og varð borgarstjóri í 17 mánuði en varð frá að hverfa vegna svika félaga sinna í Sjálfstæðisflokknum, Gísla Marteins Baldurssonar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Þorbjargar Vigfúsdóttur sem létu andstæðingana plata sig sem frægt varð. Mörgum er í minni þegar Þorbjörg sendi Svandísi Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, sms með orðunum „til í hvað sem er án Villa“ sem þótti lítilmannlegt í meira lagi. Þá féll sá meirihluti.

Þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra árið 1991 tók Markús Örn Antonsson við stöðu borgarstjóra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ætlunin var að hann leiddi lista flokksins í kosningunum 1994, þegar R-listinn bauð fyrst fram. Þegar nær dró kosningum gerði hann sér ljóst að staðan var vonlítil og sagði af sér. Þá tók Árni Sigfússon við og háði kosningabaráttuna fyrir flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þeim kosningum og einnig árið 1998 en Árni var þá einnig leiðtogi flokksins í borginni. 

Árið 2002 hugðist flokksforystan heldur betur leika snjallan leik. Lista flokksins var stillt upp og Björn Bjarnason látinn leiða. Hann hafði gegnt ráðherrastöðu og þingmennsku. Útkoman varð þá verri en nokkru sinni fyrr og Reykjavíkurlistinn styrkti stöðu sína. Hugmyndin um Björn sem leiðtoga flokksins í borgarstjórn var andvana fædd og jók einungis á vandann.

Fyrir kosningarnar árið 2006 var háð prófkjör hjá flokknum. Gísli Marteinn Baldursson sóttist eftir leiðtogasætinu eins og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, reyndasti borgarfulltrúi flokksins. Vilhjálmur sigraði nokkuð örugglega og leiddi lista flokksins. Fylgið jókst talsvert frá kosningunum þar á undan og Vilhjálmur varð borgarstjóri. Gísli Marteinn og félagar gátu aldrei sætt sig við tapið í prófkjörinu og unnu ekki af heilindum á vettvangi borgarinnar. Eftir 17 mánuði brást samstaða sjálfstæðismanna og meirihlutinn féll. Á kjörtímabilinu 2006 til 2010 voru myndaðir fjórir meirihlutar í borginni, fjórir borgarstjórar gegndu embættinu og ringulreið ríkti. Undir lokin varð Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og leiddi lista flokksins í kosningunum 2010.

Það var í þeim eftirminnilegu kosningum, árið 2010, sem Jón Gnarr stóð uppi sem sigurvegari og tók við stöðu borgarstjóra. Hann hélt út allt kjörtímabilið í samstarfi við Samfylkinguna. Hanna Birna leiddi lista Sjálfstæðisflokksins sem galt afhroð.

Fyrir kosningarnar árið 2014 var efnt til leiðtogaprófkjörs til þess að reyna eitthvað nýtt. Bar þá svo við að fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði, Halldór Halldórsson, flaug í bæinn, tók þátt í prófkjörinu og bar sigur úr bítum. Hann leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2014 og fór fylgi flokksins í Reykjavík það ár niður í það lægsta sem gerst hefur. Sjálfstæðisflokkurinn var áfram í stjórnarandstöðu, valdalaus úti í kuldanum.

Fyrir kosningarnar árið 2018 var ákveðið að stilla upp á lista flokksins nema hvað kosið skyldi um efsta sætið, leiðtogasætið. Sveitarstjórnarmaður frá Selfossi, Eyþór Arnalds, kom þá í bæinn og vann baráttuna um leiðtogasætið sem hann gegndi í kosningunum og í eitt kjörtímabil. Undir forystu Eyþórs jókst fylgið talsvert og fór yfir 30 prósent. Flokksmenn voru samt ekki ánægðir með störf hans þannig að Eyþór bauð sig ekki fram að nýju að kjörtímabilinu loknu. Það voru slæm tíðindi fyrir flokkinn.

Í prófkjöri árið 2022 bar Hildur Björnsdóttir sigur úr býtum. Hana skorti ekki sjálfstraust og bjóst fastlega við að borgarstjórastaðan biði hennar að kosningum loknum. Sú varð hins vegar ekki raunin, enda tapaði flokkurinn talsverðu fylgi, fór niður í 24 prósent og tapaði tveimur sætum borgarfulltrúa. Undir forystu Hildar fékk flokkurinn næstlægsta fylgi sitt í sögunni í borgarstjórnarkosningum. Dagur B. Eggertsson hélt bara áfram og náði að sinna embættinu samfleytt í 10 ár. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðustu borgarstjórnarkosningum hefur lítið farið fyrir Hildi Björnsdóttur í minnihlutanum. Aðrir hafa látið meira til sín taka, ekki síst Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem sendir stöðugt frá sér blaðagreinar með ávirðingum um borgina. Mest ber þar á sömu tuggunni um að fjárhagur borgarinnar sé afar slæmur – sem á reyndar ekki við nein rök að styðjast.

Síðasta aldarþriðjunginn hafa leiðtogar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur reynst vera einnota. Spurningin nú er hverjum verði fórnað næst.

Er ekki bara röðin komin að Kjartani Magnússyni?

- Ólafur Arnarson.