Vandi fylgir vegsemd hverri

Samfylkingin fer með himinskautum í nýjustu Gallup-könnuninni. Flokkurinn mælist með 30,6 prósent fylgi á meðan aðrir flokkar eru í basli, nema Miðflokkurinn sem er kominn í 10,9 prósenta fylgi en fékk einungis rúm 5 prósent í síðustu kosningum.

Andstæðingar ríkisstjórnarflokkanna geta nú brosað í skammdeginu yfir miklu fylgistapi þeirra. Samfylkingin fengi á bilinu 20 til 23 þingmenn, eftir því hvernig Gallup-könnunin er túlkuð. Flokkurinn hefur núna 6 þingmenn. Miðað við þetta yrði um byltingarkennda niðurstöðu að ræða.

En gleymum því ekki að hér er um skoðanakönnun að ræða þótt hún sé stór. Niðurstöður hennar eru reyndar í miklu samræmi við þá þróun sem verið hefur síðustu 12 til 15 mánuðina eftir að formannsskipti urðu í Samfylkingunni og óeining innan ríkisstjórnarflokkanna fór að verða áþreifanleg. Ríkisstjórn kyrrstöðu er að festa sig æ betur í sessi. Vinstri grænir hafa náð að taka mörg mikilvæg mál í gíslingu og það veldur skaða og úlfúð.

Að fylgi Samfylkingarinnar hafi þrefaldast á kjörtímabilinu er ævintýri líkast þótt ekki sé um niðurstöðu kosninga að ræða.

Flestir taka mjög mikið mark á niðurstöðum kannana Gallups. Þessi könnun er sú besta fyrir Samfylkinguna enn sem komið um leið og hún er hin versta fyrir stjórnarflokkanna. Hvaða ályktanir verða dregnar af þessari stöðu?

Formanns Samfylkingarinnar bíður gríðarlega erfitt verkefni að halda fengnum hlut. Það er gaman núna. En verður gaman þegar – og ef – fylgið byrjar að síga og leka niður í áttina að fyrra slæma fylgi flokksins? Við því er vart að búast. Vandi formanns Samfylkingarinnar er meðal annars sá að nú munu ýmsir aðilar sækjast eftir því að komast á lista flokksins og ná kjöri til Alþingis. Sumir munu einungis styrkja stöðu flokksins og má þar nefna Dag B. Eggertsson. Stór spurningarmerki verða sett við suma hinna. Kristrún þarf að hafa varann á sér og taka yfirvegaðar ákvarðanir. Meðal fyrrverandi þingmanna sem vilja nú komast inn á þing að nýju eru Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björgvin Sigurðsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Ætla má að fimm af núverandi sex þingmönnum flokksins sitji áfram á þingi. Engu að síður er mikið svigrúm fyrir alveg nýtt fólk, verði niðurstöður næstu kosninga í einhverju samræmi við skoðanakannanir undanfarin misseri.

Vandi formanns Samfylkingarinnar verður að velja og hafna og standast ásókn alls konar fólks sem sér nú tækifæri til að komast á Alþingi, ná meintum völdum og tryggja sér eina og hálfa milljón króna í örugg laun á mánuði, hið minnsta. Hér er um að ræða dygga flokksmenn sem telja að röðin sé nú komin að þeim eftir göngu um djúpan dal. Þá má nefna fjölda fólks sem þegar er starfandi fyrir flokkinn í sveitarstjórnum, einnig tækifærissinna úr mörgum áttum, sjálfskipaðra fulltrúa ýmissa hagsmunahópa, raunverulegra og ímyndaðra. Haldi Samfylkingin áfram að mælast í svipuðum hæðum munu þessir aðilar banka og sækjast eftir öruggum sætum á listum flokksins til að komast á Alþingi og styðja ríkisstjórn undir forsæti formanns Samfylkingarinnar.

Þegar eru farin að heyrast nöfn fólks sem hugsar sér gott til glóðarinnar. Þar á meðal er þekktur fjölmiðlamaður sem fram til þessa hefur verið talinn grjótharður sósíalisti, lengst til vinstri í Vinstri grænum – eða jafnvel í Sósíalistaflokki Gunnars Smára. Hann er nú sagður skyndilega hafa fundið köllun sína sem krati. Dæmigerður tækifærissinni sem gerir sér vonir um að fljóta inn á Alþingi á vinsældum flokks sem hefur svo sannarlega þurft að berjast fyrir lífi sínu síðasta áratuginn.

Kristrún Frostadóttir verður að fylgjast vel með þeim sem birtast á lokametrunum og segja: „Nú get ég.“

Ekki má gleyma því að gömlu flokkarnir, einkum Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, eiga mikið gamalt, gamalgróið og öruggt fylgi – fylgi sem reyndar deyr smám saman vegna þess að endurnýjun þess er svo takmörkuð að það telst ekki lengur sjálfbært. Þegar á hólminn er kominn, þegar alvaran birtist, þegar kjördagur rennur upp, þá skilar þetta fólk sér býsna vel og hættir að hrekkja sína gömlu flokka með því að þykjast ætla að kjósa MIðflokkinn. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eiga talsvert fylgi inni sem kemur til baka þó að nýjasta skoðanakönnunin gefi til kynna það að hafi lent hjá Miðflokki. Sennilega er þar einungis um millilendingu að ræða. Þá er rétt að hafa í huga að eftir að Sjálfstæðisflokkurinn seldi byggingarrétti við Valhöll fyrir 600 milljónir króna – með velvilja núverandi borgarstjórnarmeirihluta – býr flokkurinn við mjög góða lausafjárstöðu sem væntanlega verður nýtt af krafti þegar kemur til kosninga. Einhverju ætti það að skila í varnarbaráttunni.

Staða Vinstri grænna er með þeim einstaka hætti að flokkur forsætisráðherra er í bráðri hættu á að falla út af þingi ef fram heldur sem horfir. Slík staða er einstök hér á landi og þótt víðar væri leitað. Reyni formaður flokksins að forða sér úr sökkvandi skipi og leita eftir kjöri til embættis forseta Íslands má ætla að flokkurinn sökkvi endanlega því enginn stjórnmálamaður er nú í sjónmáli sem gæti tekið við forystu Vinstri grænna með trúverðugum hætti.

Á þessari stundu er ekki vitað hvort gengið verður til þingkosninga á Íslandi á yfirstandandi ári eða því næsta. Miðað við alla þá váboða sem nú eru á lofti þyrfti ekki að koma á óvart þó að kosið yrði fyrr en seinna, jafnvel innan fárra mánaða. En fram að kosningum munu öll spjót standa á formanni Samfylkingarinnar sem hefur þau meginverkefni að freista þess að verja meint risafylgi flokksins og hamla gegn ásókn lukkuriddara sem vilja nýta meðbyrinn sér til persónulegs framdráttar.

- Ólafur Arnarson