Ólíkt höfðust þeir að

Ekki blæs byrlega fyrir ríkisstjórnarflokkunum um þessar mundir. Vinstri græn mælast ekki inni á þingi og Framsókn er komin að hættumörkum. Sjálfstæðisflokkurinn mælist einatt undir 20 prósentum og virðist jafnvel vera að síga niður fyrir 15 prósentin, ef marka má könnun Maskínu í síðustu viku,

Ríkisstjórnin hefur um langt skeið verið lifandi dauð. Við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr ríkisstjórninni, þegar Bjarni Benediktsson tók við forsætisráðuneytinu, syrti enn í álinn. Í stað þess að hin lífvana ríkisstjórn breyttist í uppvakning fór beinlínis að slá í hana og nú finna stjórnarandstaðan, kjósendur og stjórnarliðar sjálfir fnykinn langar leiðir.

Hverju sætir að staða Sjálfstæðisflokksins skuli vera jafn bágborin og raun ber vitni? Stutta svarið er að í þessu stjórnarsamstarfi hefur flokkurinn týnt tilgangi sínum, glatað erindinu. Enginn þarf að furða sig á því. Stefnuskrá og grunngildi VG og Sjálfstæðisflokksins stangast gersamlega á. Þessir flokkar eiga aldrei að vinna saman í ríkisstjórn.

Árangur stjórnarsamstarfsins, eða öllu heldur afleiðingar þess, blasa við öllum. Atvinnulífið og heimilin í landinu finna á eigin skinni að hér hefur í sjö ár starfað ríkisstjórn sem engin tök hefur á ríkisfjármálunum, Lykilástæður mikillar og þrálátrar verðbólgu eru lausung í ríkisfjármálunum, en ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla og er þá ekki átt við viðbótarhallann sem stafar af Covid og náttúruhamförum. Innviðir grotna og má í því sambandi benda á samgöngur, heilbrigðismál og mennta- og skólamál. Ísland dregst sífellt aftur úr þeim löndum sem við berum okkur saman við, sérstaklega þegar horft er til verðmætasköpunar.

Fjármagnskostnaður íslenska ríkisins er margfaldur á við það sem önnur ríki í Evrópu, sem þó glíma við meiri skuldir en Ísland. Fyrir vikið getur ríkissjóður ekki staðið undir innviðum sem standast samanburð við það sem tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Peningarnir fara í að borga vexti.

Sama gildir um atvinnulífið og heimilin í landinu. Þetta dregur úr samkeppnishæfni Íslands, kallar á meiri launakröfur og ýtir undir verðbólgu í landinu.

Í raun má segja að samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn grundvallist á því að flokkarnir náðu saman um það versta í stefnu hvor annars. Í báðum flokkum eru öfl sem vilja „verja“ Ísland fyrir umheiminum og óæskilegum áhrifum erlendis frá.

Allt frá stofnun, 1929, var Sjálfstæðisflokkurinn frjálslynt og víðsýnt stjórnmálaafl. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið í fylkingarbrjósti þegar kemur að umbótum í frelsisátt í íslensku viðskiptalífi, gjarnan í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

Helstu framfaraskref til hagsældar fyrir Ísland og íbúa landsins frá lýðveldisstofnun tengjast alþjóðasamstarfi þjóðarinnar. Innganga Íslands í NATÓ, 1949, EFTA, 1970, og EES, 1992, byggðist á samstöðu Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins um að Ísland skyldi vera hluti af samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða þegar að viðskiptum og vörnum kemur. Vert er að geta þess að Framsóknarflokkurinn var í þeirri ríkisstjórn sem samþykkti inngönguna í NATÓ og voru þessir þrír flokkar, Alþýðuflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, löngum kallaðir lýðræðisflokkarnir á Íslandi.

En þetta var á síðustu öld. Á 21. öldinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn afsalað sér hlutverki hins frjálslynda og víðsýna stjórnmálaafls sem hefur forgöngu um að efla hag lands og þjóðar í farsælu samstarfi við aðrar lýðræðisþjóðir. Undir forystu Davíðs Oddssonar og síðar Bjarna Benediktssonar hefur flokkurinn breyst í hagsmunagæsluflokk sem gætir sérhagsmuna auðfyrirtækja en skeytir lítt um hag atvinnulífsins eða heimilanna í landinu almennt, hið minnsta ef valið stendur á milli almannahagsmuna og sérhagsmuna.

Með hliðsjón af sögunni má ætla að ýmsir gengnir foringjar sjálfstæðismanna frá síðustu öld myndu vart þekkja þann flokk sem í dag berst með kjafti og klóm fyrir því að viðhalda hér á landi gjaldmiðli sem veldur því að vaxtakostnaður fyrirtækja og heimila er margfaldur á við það sem stendur til boða í þeim löndum sem við berum okkur saman við og stórskaðar þar með samkeppnishæfni landsins.

– Ólafur Arnarson