Ótækt að flugumferðarstjórar loki landinu – tafarlaus lagasetning óhjákvæmileg

Það er ekki hægt að una við það að fáeinir flugumferðarstjórar komist upp með að loka landinu á viðkvæmum annatímum eins og nú hefur gerst. Stjórnvöld verða að grípa inn í tafarlaust og setja lög á vanhugsað og ósvífið verkfall þeirra. Ekki er unnt að bíða lengur með aðgerðir. Það verður að setja lög á verkfallið og aflýsa því strax í dag.

Hér er ekki mælt með því að almennt grípi stjórnvöld inn í átök á vinnumarkaði enda hefur það ekki tíðkast nema í algerum neyðartilvikum eins og hér er um að ræða. Launþegahreyfingunni verður að sýna virðingu og gera þá kröfu til hennar að kröfugerð sé málefnaleg og í tengslum við raunveruleikann. Framkoma flugumferðarstjóra er það ekki. Þessi fámenna stétt velur að loka landinu í aðdraganda jóla virðist búa í einhverjum allt öðrum veruleika en landsmenn. Reynt hefur verið að ná samkomulagi við þá sem hefur ekki tekist. Ekkert bendir til þess að samkomulag geti verið í augsýn og því verða stjórnvöld að grípa strax inn í með lagasetningu, aflýsa verkfallinu og vísa málinu til meðferðar sanngjarnra úrskurðaraðila. Það þarf að gerast tafarlaust til að koma í veg fyrir að enn frekari skaði hljótist af.

Ætla verður að allir flokkar á Alþingi sýni lagasetningu í þessu máli skilning. Ekki eru efni til neinna pólitískra átaka ef ríkisstjórnin sýnir nú frumkvæði og setur bráðabirgðalög, strax í dag eða kvöld. Ef stjórnarandstaðan gerir ágreining vegna lagasetningar yrði að líta á það sem ábyrgðarleysi.

Fram hefur komið að heildar starfskjör flugumferðarstjóra eru á bilinu 1,5 til 2 milljónir króna á mánuði sem er langt yfir almennum kjörum fólks í landinu. Launþegahreyfingin hefur ekki það hlutverk að ryðja brautina fyrir ofurlaun af því tagi – og alla vega alls ekki þegar krafa flugumferðarstjóranna mun vera fjórðungshækkun ofan á umrædd kjör. 

Það eru viðkvæmir tímar í þjóðfélaginu. Mörg fyrirtæki freista þess að rétta hlut sinn eftir hörmungar tveggja veiruára sem skemmdu mikið fyrir. Það á ekki síst við í ferðaþjónustunni sem er sú atvinnugrein sem aflar þjóðinni langmestra gjaldeyristekna og hefur breytt atvinnuástandi í landinu til hins betra og knúið hagvöxt áfram. Allar atvinnugreinar og almenningur líða fyrir okurvexti og hækkaða verðbólgu sem flestir virðast skilja að þurfi að ráðast gegn. Það gerist ekki með skemmdarverkum af því tagi sem fámenn stétt flugumferðarstjóra hefur boðið upp á. Ferðaþjónustan hér á landi þarf nú að fá vinnufrið og menn þurfa að virða mikilvægi þess að vernda orðspor Íslands.

Þessi fámenni hópur flugumferðarstjóra hefur ítrekað stundað skemmdarverkastarfsemi af þessu tagi. Hann skákar í því skjóli að Ísland er eyja og samgöngur við útlönd eru nær eingöngu flugsamgöngur. Raunar má segja að engin góð rök standi til þess að heildar starfskjör stéttarinnar, sem hefur að baki 2-3 ára nám sem að verulegum hluta er launað starfsnám, ólíkt því sem er með flugmenn sem þurfa að verja mörgum árum í að fullmennta sig í sínu fagi með gríðarlegum kostnaði, sem fellur á þá sjálfa. Svo voga talsmenn flugumferðarstjóra sér að miða kröfur sínar við starfskjör flugmanna og flugstjóra. Færa má góð rök fyrir því að heildarstarfskjör flugumferðarstjóra upp á 1,5-2 milljónir á mánuði sé óeðlilega há.

Samtök atvinnulífsins verða að koma fram af fullri alvöru í þessu grafalvarlega máli. Ágætur formaður samtakanna, Eyjólfur Árni Rafnsson, verður að stíga fram sjálfur og reka þetta mál af fullri alvöru og ábyrgð. Ekki dugar að talsmenn samtakanna slái um sig með aulahúmor og fimmaurabröndurum og tali á kjánalegan hátt um „kartöflur í skóinn“ þegar fjallað er um risastórt viðfangsefni sem krefst fullrar alvöru og ábyrgrar framkomu.

Þetta mál  minnir á nauðsyn þess að láta ekki dragast lengur að Alþingi endurmeti lög um kjarasamninga og vinnudeilur sem eru nær aldargömul og löngu úrelt. Auka þarf verulega hlutverk og vald ríkissáttasemjara og tryggja faglegri vinnubrögð við gerð kjarasamninga.

- Ólafur Arnarson