Getur rúv unnið formannsslag?

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er reiður í dag. Hann tekur ósigri Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar álíka illa og Sigmundur sjálfur. Höfundurinn lítur þannig á að RÚV sé sigurvegari formannskosninga í Framsókn en svo komi Sigurður Ingi Jóhannsson, sjálfur sigurvegarinn, þar á eftir.

Þetta er einhver hallærislegasti leiðari sem ritaður hefur verið á Íslandi í seinni tíð. Allir vita að Morgunblaðið studdi Sigmund og gerði allt sem hægt var til að sveigja fréttaflutning sinn honum í hag. Þá birti blaðið viðtal við eiginkonu Sigmundar Davíðs sem fékk loks málið um Tortólahneykslið eftir 5 mánaða þögn. En þegar komið var út í valdabaráttu í forystu Framsóknar, var hún allt í einu komin með mikla þörf fyrir að tjá sig.

Dagfara finnst þetta viðtal vera með endemum. Það minnir mun meira á afurð frá auglýsingastofa en blaðamennsku. Einhverjir þóttust sjá fingraför Jóhannesar útskírara á verkinu. Um það verður ekkert fullyrt hér. Víst er að reynt var að höfða til vorkunsemi og samúðar. Lagst var eins lágt í því efni og hugsast gat.

Þrátt fyrir stuðning Morgunblaðsins tapaði Sigmundur Davíð og var felldur sem formaður Framsóknar. Það hefur ekki gerst í 72 ár hjá Framsókn. Ekki síðan Hermann Jónasson felldi Jónas frá Hriflu árið 1944. Jónas er einmitt sá maður sem Sigmundur Davíð tók sér mest til fyrirmyndar í valdatíð sinni.

Morgunblaðinu gengur illa að vinna sigra þegar kemur að pólitískum afskiptum blaðsins í seinni tíð. Sl. vor bauð blaðið fram forsetaefni sem hlaut hraklega útreið. Frambjóðandinn lenti í 4. sæti og fékk einungis 13,7% atkvæða en var þó fyrir ofan Sturlu vörubílstjóra. Nú studdi blaðið Sigmund Davíð sem tapaði formannskosningunni og hefur verið hrakinn burt sem formaður Framsóknarflokksins.

Nú er spurt hvaða flokk Mogginn hyggist styðja í komandi kosningum. Ætla má að sá flokkur verði undir og tapi kosningunum miðað við þá reynslu af stuðningi blaðsins sem hér er nefnd.