Engin þjóðarsátt um gjafakvóta

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrvarandi alþingismaður, hjólar í þá sem hafa talað um að gera megi breytingar á kvótakefinu þannig að þjóðarsátt náist um það. Þetta gerir hann með skeleggri grein sem hann birti í málgagni sægreifanna, Morgunblaðinu. Þetta er kaldhæðnislegt og trúlega þaulhugsað af hálfu Kristins.

Kristinn var lengi þingmaður fyrir mismunandi flokka. Hann var að sönnu umdeildur en ekki er unnt að halda því fram af neinni sanngirni að hann hafi ekki haft vit á sjávarútvegsmálum sem hann setti sig sérstaklega vel inn í alla tíð. Og ljóst er að hann veit ennþá sínu viti þegar kemur að þessum málaflokki. Í ljósi þess er vert að gefa grein hans gaum.

Í greininni kemur m.a. fram að í tíð núverandi ríkisstjórnar hafi verið teknar ákvarðanir um 66% lækkun veiðigjalda í botnfiskveiðum. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Svo virðist sem almenningur geri sér ekki grein fyrir hvert stefnir í þessu efni og því er þakkarvert að Kristinn, sem býr yfir mikilli þekkingu á þessu sviði, skuli koma fram á ritvöllinn og vekja máls á þessum alvarlegu staðreyndum.

Tilefni skrifa Kristins einmitt nú er grein sem Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, birti þann 4. júlí sl. undir fyrirsögninni Þjóðarsátt um sjávarútveg. Kristinn rekur efni tillagna Jóns og þykir lítið til þeirra koma. Telur hann að tillögurnar gangi út á að festa í sessi það ósanngjarna gjafakvótakerfi sem nú er við lýði og geri það jafnvel enn verra en verið hefur. Víst er að veiðileyfagjöld hafa lækkað um 18 milljarða á yfirstandandi kjörtímabili á sama tíma og rífandi gangur í í sjávarútvegi landsmanna.

Brýnt er að fram fari ítarlegar umræður um kvótakerfið og þá stefnu ríkisstjórnarinnar að lækka stöðugt það afgjald sem sjávarútvegur á Íslandi greiðir fyrir afnot af auðlindinni til eigenda hennar, íslensku þjóðarinnar.

Ætla má að stefna stjórnmálaflokka varðandi veiðileyfagjöld og stjórnun fiskveiða verði eitt helsta kosningamál næstu kosninga. Þá munu Sjálfstæðisflokkur og Framsókn þurfa að svara fyrir þjónkun sína við sægreifa landsins.