Bjarni leikur fórnarlamb og hrekst undan – minni spámenn vekja á sér athygli og vilja hlutverk

Eftir að Umboðsmaður Alþingis birti álit sitt um vanhæfi og afbrot Bjarna Benediktssonar átti hann engan annan kost en að segja af sér embætti fjármálaráðherra. Þetta er þriðja opinbera álitið vegna sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka sem felur í sér áfellisdóm yfir framgöngu fjármálaráðherra í málinu. Hvers vegna sagði hann ekki af sér fyrir ári þegar Ríkisendurskoðandi birti svarta skýrslu um málið og hvers vegna frekar núna?

Þeir sem fylgjast vel með stjórnmálum á Íslandi telja flestir að hér sé á ferðinni þaulhugsuð flétta af hálfu Bjarna. Hann velur að koma fram og bregða sér í hlutverk fórnarlambsins, sýna meinta auðmýkt og leggja áherslu á heiðarleika sinn með afsögninni á sama tíma og hann gerir lítið úr áliti Umboðsmanns Alþingis og segist vera saklaus. Með því stangast hvað á annars horn. Kjósendur munu brátt sjá í gegnum fléttuna enda er hún ótrúverðug.

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að Bjarni Benediktsson myndi nýta fyrsta tækifæri til að taka hefja brottför úr núverandi hlutverki sínu sem ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur lengi ætlað að víkja á miðju kjörtímabili fyrir varaformanni sínum, Þórdísi Kolbrúnu, eiga við hana stólaskipti. Með því fengi hún nokkurn tíma í embætti formanns áður en kemur að næsta landsfundi flokksins. Þá kæmi hún til landsfundar sem formaður og aðrir ættu óhægt um vik að sækjast eftir formannsembættinu þar sem hún hefði fengið mikilvægt forskot.

Talið er að einhverjir líti hýru auga til formannssætisins í flokknum þegar Bjarni stígur niður og telji ekki sjálfgefið að Þórdís fái stöðuna baráttulaust. Ekki er víst að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi sagt sitt síðasta hvað það varðar enda er hann reyndasti stjórnmálamaðurinn í flokknum. Því er einnig hvíslað að Áslaugu Sigurbjörnsdóttur detti í hug að hún gæti náð enn lengra í flokknum en þegar er. Það er langsótt, ekki hvað síst eftir vanhugsaða framkomu hennar á sjávarútvegsfundi í síðustu viku þar sem hún sýndi af sér fáheyrt dómgreindarleysi og beinlínis hráan dónaskap.

Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir hafa komið fram í fjölmiðlum í framhaldi af afsögn Bjarna og látið í veðri vaka að nú þyrftu aðilar nokkra daga til að ráða fram úr þeirri óvissu sem skapast hefur. Bæði sýna þau örugga leikræna tilburði og láta eins og mikil óvissa sé ríkjandi. Þetta er vel æfð sýning. Það er engin óvissa. Framvindan verður að líkindum þessi:

Á laugardaginn verður haldinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Þórdís Kolbrún Gylfadóttir tekur við embætti fjármálaráðherra og Bjarni tekur við embætti utanríkisráðherra. Bjarna stendur til boða að taka við stöðu sendiherra Íslands í Washington og hann mun gera það þegar Alþingi fer í sumarleyfi í júní á næsta ári. Mun Bjarni þá segja af sér ráðherradómi, þingmennsku og formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Varaformaðurinn Þórdís Kolbrún tekur við formennsku og kemur til landsfundar snemma um haustið 2024 sem formaður og verður endurkjörin. Í kjölfarið verða haustkosningar til Alþingis.

Þetta er í öllu falli fléttan eins og lagt var upp með hana. Nú hafa hins vegar borist fregnir af því að Þórdís Kolbrún sé treg til að færa sig yfir í fjármálaráðuneytið, auk þess sem áhugi virðist vera á því hjá samstarfsflokkum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn að ráðherrakapallinn verðir lengri og meiri og jafnvel að ráðuneyti flytjist milli flokka. Þetta gæti leitt til þess að hringekja færi í gang og ein fléttan er að Svandís Svavarsdóttir fari í annað ráðuneyti en áfellisdómur yfir Umboðsmanns Alþingis yfir þeirri embættisfærslu hennar að banna hvalveiðar á síðustu stundu í júní mynd gera henni ókleift að sitja áfram í því ráðuneyti eftir afsögn Bjarna.

Mikið er því spáð og spekúlerað í þingflokksherbergjum stjórnarflokkanna og á lokuðum fundum flokksformannanna. Grunnfléttan er hins vegar óbreytt. Bjarni hverfur úr stjórnmálum á næsta ári og Þórdís Kolbrún tekur við og verður svo staðfest sem nýr formaður á landsfundi haustið 2024. En, eins og Harold Wilson fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands sagði: Vika er langur tími í pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega leggja áherslu á að finna karlkyns varaformann. Guðlaugur Þór mun ekki sækjast eftir því. Enginn annar í núverandi þingflokki hefur neina burði til að taka við embætti varaformanns. Þetta veit Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi, en hann hefur beðið rólegur á hliðarlínunni eftir að komast í forystu flokksins. Í gær steig hann fram og skrifaði væmna lofgrein um Bjarna Benediktsson og lét í veðri vaka að með því að hrekjast úr embætti fjármálaráðherra hefði hann unnið stórkostlegt afrek! Elliða finnst eins og ýmsum öðrum allt í lagi að maður, sem hefur brotið lög og reglur í einu ráðuneyti og fengið falleinkunn hjá Umboðsmanni Alþingis vegna þess, sé aldeilis hæfur til að taka við ráðherraembætti í öðru ráðuneyti eins og ekkert hafi í skorist.

Elliði er fyrst og fremst að koma sér í mjúkinn hjá flokksforystunni og valdahópum flokksins vegna þess að hann ætlar að sækjast eftir embætti varaformanns á landsfundi þegar til framangreindra breytinga kemur. Nái hann kjöri sem varaformaður er leiðin greið fyrir hann að taka forystu í Suðurkjördæminu og koma til greina sem ráðherra næst þegar flokkurinn verður með í ríkisstjórn.

- Ólafur Arnarson