Einkaframtakið brást í borginni

Ég er ekki í framboði til borgarstjórnar í Reykjavík eða nokkru öðru sveitarfélagi landsins. En ég er ekki einasta öfgafullur áhugamaður um pólitísk málefni samtímans heldur líka fjölmiðlamaður af þeirri sortinni sem drekk í mig fréttir og upplýsingar um þjóðmál líðandi stundar. Og það er akkúrat í því ríka ljósi sem ég hef ekki púslast rétt inn í pólitik síðustu vikna og mánuða.

Það má vel vera að betur megi gera í umferðinni - og minnka svifrykið, fækka bílum kannski. Og það má örugglega standa sig betur í leikskólamálum. Ég gleymi heldur ekki grunnskólanum sem þarfnast aðhlynningar á öllum tímum. Auðvitað má líka einfalda kerfið og fækka skrifstofublókum sem gera víst ekkert annað en að tefja fyrir frekari uppbyggingu í einu borginni á Íslandi.

En ég sakna mest viðbragða við helsta og alvarlegasta neyðarástandinu á suðvesturhorni landsins. Ef vandi þess væri falinn í einu orði væri það íbúðaokur. Þar er komið stærsta pólitíska úrlausnarefni samtímans sem enginn þorir að taka á, frekar en heitum kartöflum fyrri tíma. Einkaframtakið og séreignastefnan var ekki svarið þegar til lengdar lét. En má nefna það í nútíma?