Kostir íslensks samfélags og gallar

Höfuðkostir Íslands, fyrir nú utan stórkostlega náttúru og óspillt víðerni, er friðsamt og frjálslegt samfélag sem býr yfir miklum sköpunarkrafti og er aukin heldur fljótt að laga sig að breytingum frá einum tíma til annars. Fámennið hér á landi gerir það líka að verkum að samfélagið á það til að vera samhent og auðmjúkt þegar eitthvað bjátar á, svo sem þegar stórslys og hamfarir hafa skekið þjóðina.

Helsti ókostur landsins er aftur  á móti dýrtíð og vaxtaokur. Það sést á íbúðaverði. Það sést á matarverði. Fyrir venjulegan launamann birtist það einfaldlega í því að hann fær miklu minna fyrir launin sín en manneskja sem hefur sama starfa í næstu löndum Evrópu. Þess utan er framleiðni hér á landi undarlega lítil, enda virðist vinnusemi á Íslandi vera mæld í viðveru og tímafjölda, öðru fremur.

Ég heyrði af rosknum manni á dögunum sem seldi 80 fermetra íbúð sina í Hlíðunum í Reykjavík á 38 milljónir króna. Hann keypti jafn stóra íbúð í Málmey í Svíþjóð fyrir 15 milljónir króna. Hann er fluttur út til frænda okkar. Þar fær hann hærri laun en heima á Íslandi. Og þar fær hann ódýrari mat en á Íslandi. Hann fær meira af öllu. Og það er akkúrat þarna sem samkeppnisvandi Íslendinga liggur.