Vandi lítilla og meðalstórra heimila

Lítil og meðalstór heimili búa við svo óstýriláta krónu að enginn í heimilinu veit hvernig verðlagningu á mat og öðrum nauðsynjum verður háttað frá einum tíma til annars. Lítil og meðalstór heimili hafa enga glóru um það hvernig fasteignalán þeirra geta breyst eða stökkbreyst á meðan afborgununum vindur fram. Og svo veit fólkið á litlum og meðalstórum heimilum minnst um það hver kaupmátturinn verður í næsta launaumslagi þess.

Fyrir þá sem gera út efnaminnstu heimilin er þetta harla skítt. Þar kemur dýrtíðin náttúrlega harðast niður. Verð á eldsneyti þarf ekki að hækka mikið svo heimilisútgerðin á þeim bæjunum neyðist til að leggja einkabílnum, hafi hún á annað borð efni á ökutækinu. Hækkun leikskólagjalda fækkar enn krónunum til að kaupa mat í svona kotbúskap. Og virðisaukaskattur á föt kemur einna verst við svona lítil og meðalstór heimili.

Að ekki sé talað um það að húsaleigan hækki upp úr öllu valdi, eins og mýmörg dæmi eru um nú um stundir. Það jafngildir afkomuviðvörun svona aðþrengdra heimila - og kallar á enn hertari sparnaðaraðgerðir, svo sem að gera minna við sig í mat, hætta að kaupa föt og sleppa sumarfríinu. En það verður einhvern veginn að harka þetta af sér. Nema náttúrlega að ríkisstjórnin lækki hreinilega leiguna á svona heimilum.