Atli ekki sáttur við Nóa Síríus: „Svona er þetta, því miður“

Atli Einarsson, viðskiptastjóri Góu, er allt annað en hress með þá ákvörðun Nóa Síríus að hefja framleiðslu og sölu á svokölluðum Tromp hvelli. Um er að ræða sælgætisbita sem innihalda marsípan og lakkrís sem hjúpaður er hríssúkkulaði. Varan var kynnt til leiks á dögunum.

Góa selur mjög sambærilega vöru sem kallast Appolo Lakkrís-bitar, en þeir nutu talsverðra vinsælda þegar þeir komu á markað í fyrra.

Í samtali við fréttavef DV segir Atli að um sé að ræða stælingu á góðri vöru. Bitarnir voru ekki til sölu í vetur en til stóð að setja þá aftur á markað á allra næstu dögum.

„Varan er að koma aftur á markað í þessum töluðu orðum og þá kemur þetta. Þetta er okkar gæða Appolo-lakkrís og súkkulaði frá Góu. Svona er þetta, því miður. Ég veit ekki hvað maður á að segja meira, þetta er bara lélegt,“ segir Atli við DV en fréttina má lesa í heild sinni hér.