Vg rís ekki lengur undir nafni

Það er í besta falli undarlegt að sjá þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboð ganga fram fyrir skjöldu á löggjafarsamkundu þjóðarinnar og berjast þar fyrir lækkun veiðigjalda á sama tíma og listi yfir hæstu skattgreiðendur á Íslandi er birtur í fjölmiðlum. Af þeim lista má einmitt ráða að það þarf ekki hjálpa hæstlaunaðasta og best stæða fólkinu í landinu.

Vissulega eiga veiðigjöld að vera afkomutengd og taka mið af sveiflum, en þau eiga öðru fremur að endurspegla framlegð í greininni. Auðlindir landsins eiga ekki að vera á útsöluprís. Í þeim felast gríðarleg verðmæti, sem vel að merkja - og einmitt vegna mjög hóflegrar gjaldtöku - hefur búið til óhemjuríka auðmenn hringinn í kringum landið. VG ætlar sumsé að hjálpa þeim meira.

Það er dapurlegt að fylgjast með þessari vegferð flokks sem telur sig vera til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Og hér blasir auðvitað það augljósa við, að flokkurinn er kominn undir járnhæl samstarfsflokkanna í ríkisstjórn sem báðir geta vel varið það í sínum ranni að rétta ríkasta prósenti landsins hjálparhönd. En VG er í kreppu. Hreyfingin rís ekki lengur undir nafni.