Verndum órafmögnuð svæði íslands

Ég hitti félaga minn á dögunum sem kvaðst vera að halda vestur á firði með fögri föruneyti til að njóta ægifegurðar Jökulfjarða. Og ég lagði náttúrlega við hlustir, jafn áhugasamur og ég er sjálfur um gersemar íslenskra víðerna. Hann sagði - og horfði stíft í augu mín, að þar væri að finna einn af síðustu blettum þessa lands okkar þar sem ekkert netsamband næðist.

Og ég man að ég lygndi strax aftur augum, hugsandi um öll þau óþörfu skipti sem fólk er að reyna að kveikja á raftækjum sínum upp á fjöllum til að ná einhverju óþarfa sambandi niður í byggð. Og hann kinkaði kolli, sjálfur langþreyttur á þessari áráttu nútímamannsins að vera alltaf í sambandi og vera ávallt tengdur - og mega helst aldrei vera utan þjónustusvæðis.

Þetta eru ein mestu verðmæti framtíðarinnar, sagði félagi minn, ákveðinni röddu; hugsaðu þér, bætti hann við, hvað ferðaþjónustan á Íslandi á marga gullna punkta á svona svæðum þar sem fólk getur hvílt sig af rafmagni, áreitni og upplýsingu. Og það er einmitt svo. Við eigum akkúrat svona gullmola í fórum okkar. Ein örfárra þjóða. Og nú er tími til að vernda þá.