Vilhjálmur: „þessi hótun er með svo miklum ólíkindum“

„Ég hef tekið þátt í kjarasamningagerð í 15 ár og á þessum 15 árum man ég aldrei eftir því að forstjóri fyrirtækis hóti í miðri kosningu um kjarasamning hækkun á öllum vörum fyrirtækisins ef kjarasamningur verði samþykktur eins og forstjóri ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki gerði gagnvart viðskiptavinum sínum.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ í pistli á Hringbraut. Nokkur fyrirtæki hafa boðað tæplega fjögur prósent hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna verði kjarasamningar samþykktir. En Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM lét hafa þetta eftir sér í tölvupósti til viðskiptavina. Vilhjálmur segir:

„Þessi hótun er með svo miklum ólíkindum í ljósi þess að samningsaðilar voru sammála um að lífkjarasamningurinn myndi stuðla að verðstöðugleika og myndi leiða til lækkunar vaxta, en nú er ljóst að þetta fyrirtæki ætlar ekki að taka þátt í því að láta lífkjarasamninginn skila þeim ávinningi til launafólks eins og til stóð.“ Þá segir Vilhjálmur að nauðsynlegt sé að bregðast við þessari hótun. Vilhjálmur endar pistil sinn á þessum orðum:

„Á þeirri forsendu er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þessari hótun með afgerandi hætti og tel ég morgunljóst að við verðum að hvetja okkar félagsmenn til að hunsa vörur frá þessu fyrirtæki ef fyrirtækið stendur við hótun sína.“