Áslaug Arna fékk ráðherrastólinn sem ætlaður var Brynjari

Hringbraut greindi frá því á sunnudaginn að Bjarni Benediktsson hefði verið búinn að tilkynna Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur að hún yrði ekki fyrir valinu sem næsti dómsmálaráðherra eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér embætti 2019.

Hún sagði í hlaðvarpsþættinum Chat after Dark að þetta hefði valdið henni vonbrigðum. Næsta dag fór hún í vinnuferð til Helsinki með utanríkismálanefnd Alþingis, en hún var formaður hennar.

Frá Helsinki hringdi Áslaug Arna í föður sinn, Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformann Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, til að greina honum frá þessari ákvörðun Bjarna fór greinilega eitthvað mikið í gang og ekki leið langur tími þar til Bjarni hringdi aftur og tilkynnti henni að hann hefði skipt um skoðun og víst yrði það hún sem myndi setjast í stól dómsmálaráðherra.

Af þessu er ljóst að mikill er máttur Árvakurs þegar kemur að helstu ákvörðunum hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Þegar stjórnarformaður Árvakurs beitir áhrifum sínum í þágu dóttur sinnar, reynsluminnsta þingmanns flokksins, beygir formaðurinn sig fyrir valdinu og hlýðir.

Ekki kom fram í Chat after Dark viðtalinu við Áslaugu Örnu hver hefði upphaflega átt að verða dómsmálaráðherra í stað Sigríðar Andersen.

Mannlíf greindi frá því í morgun að hermt væri að sá sem Bjarni var búinn að ákveða að skyldi verða dómsmálaráðherra væri enginn annar en Brynjar Níelsson. Hann hafði áður gefið eftir sæti sitt á lista flokksins í Reykjavík til Sigríðar Andersen. Brynjar var reynslumesti þingmaðurinn á Alþingi á sviði dómsmála, með áratuga reynslu sem lögmaður, og ekki óeðlilegt að formaður flokksins horfi til slíks við val í embætti dómsmálaráðherra.

Hringbraut hefur heimildir úr fleiri áttum um að Brynjar hafi átt að verða dómsmálaráðherra í stað Sigríðar Andersen og að tilkynning Bjarna um að Áslaug Arna myndi taka við embættinu hefði komið mörgum í þingflokknum á óvart.

Brynjar féll síðan af þingi í kosningunum 2021 og starfar nú sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.