Skiptum lokið hjá Engilbert - 245 milljón króna gjaldþrot athafnamannsins

Skiptum er lokið í búi athafnamannsins Engilberts Runólfssonar. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag en lýstar kröfur í búið námu 245 milljónum króna en engar eignir fundust.

Engilbert var úrskurður gjaldþrota þann 12.  maí 2020 en nokkrum mánuðum fyrr, eða í janúar 2020, var hann dæmdur fyrir stórfelld skattsvik og peningaþvætti. Fyrir dómi játaði Engilbert brot sín greiðlega og var í kjölfarið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá þurfti hann að greiða 58 milljóna sekt innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í eitt ár.

Engilbert var sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti á sex mánaða tímabili árið 2017 og 2018. Skattsvik Engilberts námu um 23 milljónum króna. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin og hefur áður verið fundinn sekur um brot gegn umferðarlögum, fíkniefnalagabrot, brot gegn skotvopnalöggjöfinni, hylmingu og skjalafals. Hann hefur síðastliðin ár verið umsvifamikill í viðskiptalífinu og farið fyrir fjölda verktakafyrirtækja.

Árið 2019 fór DV ítarlega yfir vafasama fortíð Engilberts.