Hringbraut í loftið á ný

Sjónvarpsstöðin Hringbraut, sem hætti útsendingum við gjaldþrot Torgs á síðasta degi marsmánaðar, fer aftur í loftið um helgina á Sjónvarpi Símans. Einnig verða þættirnir aðgengilegir hér á hringbraut.is. Framleiðsla nýrra þátta er þegar hafin.

Við gjaldþrot Torgs færðist rekstur DV.is, Hringbrautar.is og Iceland Magazine yfir í Fjölmiðlatorgið ehf., sem er í eigu Helga Magnússonar, sem einnig var eigandi Torgs. Félag í eigu Helga hafði fyrir tveimur árum keypt vörumerki Hringbrautar, DV og Fréttablaðsins, ásamt tækjabúnaði Hringbrautar, fyrir hátt í hálfan milljarð króna til að styrkja lausafjárstöðu Torgs á þeim tíma.

Allir starfsmenn DV fóru yfir á Fjölmiðlatorgið og nokkrir aðrir starfsmenn Torgs,

Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV, segir að fyrsti þátturinn sem fari í loftið um helgina sé Íþróttavikan, sem áhorfendur Hringbrautar kannast við. Hann verður á dagskrá vikulega undir stjórn Helga Fannars Sigurðssonar af vefmiðlinum 433.is. Í kjölfarið komi umfjöllun um Lengjudeildina.

Að sögn Björns eru þetta fyrstu tvö skrefin í endurreisn Hringbrautar. Í Vísi er haft eftir Birni: „Við ætlum ekki að gleypa heiminn í einum bita. Við ætlum að taka þetta í skrefum og kynna einhverja næsti á næstu vikum. Við ætlum örugglega að byrja á svona þremur, fjórum, allavegana til þess að byrja með.“