Umhverfisstofnun: „ekki var leitað tilboða eins og vissulega hefði þó verið rétt að gera“

Umhverfisstofnun leitaði ekki tilboða þegar hún samdi við félagið Attentus – mannauð og ráðgjöf. Samkvæmt innkaupalögum ber öllum ríkisstofnunum að leita tilboða þegar þjónusta er keypt. Þetta kemur fram í svari Björns Þorlákssonar, upplýsingafulltrúa stofnunarinnar, við fyrirspurn Morgunblaðsins um málið. Stofnunin keypti þjónustu fyrir 2,1 milljón króna af Attentus.

„Tilefni viðskipta við Attentus voru veikindi mannauðsstjóra og brýn verkefni í mannauðsmálum. Ekki var leitað tilboða eins og vissulega hefði þó verið rétt að gera. Ástæðan var að aðeins átti að brúa mjög stutt tímabil. Þegar í ljós kom að það myndi reynast lengra réð Umhverfisstofnun mannauðsstjóra til starfa.“

Umhverfisstofnun er ekki eina ríkisstofnunin sem hefur keypt þjónustu af Attentus, því fjöldi ráðuneyta og annara ríkisstofnananna hafa keypt þjónustu af fyrirtækinu. Umhverfisráðuneytið hefur borgað 16,3 milljónir króna fyrir þjónustu Attentus, en fyrirtækið er ekki með rammasamning við ríkið.