Þrúgandi hnýsni, rótgróin heift, fylgst með þér og ekkert að gerast: spyr hvort þetta sé hið neikvæða við landsbyggðina

„Er landsbyggðin að deyja? Eru allir að yfirgefa svæðið? Bara gnauðandi vindur eftir? Hundgá í fjarska. Gamalt föðurland á snúru. Slitinn fáni við hún.“

Að þessu spyr Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður í pistli í Fréttablaðinu, skrifuðum í Grundarfirði. Guðmundur segir að naflaskoðunar sé þörf, þá sérstaklega í ljósi þess að nú stefni í að 80 prósent landsmanna muni búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu. „Fólk greinilega fer,“ bendir Guðmundur á og bætir við að þetta þurfi að skoða með opnum huga. Hann bendir á að úti á landi sé víða fagurt, ró og ódýrari fasteignir. Hann segir að landsbyggðin þurfi á Reykjavík að halda og öfugt og hann hafi aldrei fundið sig í þeim ríg sem virðist ríkja á milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Þá segir Guðmundur að „æðislegt“ sé úti á landi, en þá þurfi einnig að skoða ýmsa neikvæða þætti sem einkenni búsetu á landsbyggðinni og spyrja hvort þeir séu rót vandans. Spurningar Guðmundar eru eftirfarandi:

„Getur verið að of mikil nálægð við annað fólk leiði til þess að fólki finnist það búa við þrúgandi hnýsni? Er alltaf einhver úti í glugga að fylgjast með þér? Er of erfitt að vera öðruvísi? Er hægt að vera sósíalisti í sjallabyggð?“

Guðmundur bætir við að lítið sé að gerast. Ekkert leikhús og engar íþróttir.

„Eru of margir óvinir úti á landi? Er rígurinn óbærilegur? Það er óneitanlega merkilegt — og um þetta hyggst ég gera sjónvarpsþáttaröð einhvern tímann — að heimsækja heilu firðina á Íslandi og komast að því að bændurnir sem búa þar, kannski bara tveir, tala ekki saman út af rótgróinni heift. Þetta hefur örugglega einhver áhrif á fólk. Hver nennir leiðindum til lengdar?“