Stór meirihluti íslendinga hefur miklar áhyggjur af hlýnun jarðar – stuðningsfólk miðflokksins með minnstar áhyggjur

Í nýrri könnun MMR kváðust 68 prósent Íslendinga hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar á meðan einungis 11 prósent kváðust hafa litlar áhyggjur. Mikill munur var á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum en stuðningsfólk Samfylkingar og ungt fólk hefur hvað mestar áhyggjur af hlýnun jarðar en stuðningsfólk Miðflokksins hvað minnstar.

Alls kváðust 35 prósent hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar en 33 prósent sögðu áhyggjur sínar frekar miklar. Þá kváðust 21 prósent hafa bæði miklar og litlar áhyggjur, 5 prósent frekar litlar áhyggjur og 6 prósent mjög litlar áhyggjur.

Konur höfðu meiri áhyggjur af hlýnun jarðar heldur en karlar og kváðust 76 prósent kvenna hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur, samanborið við 60 prósent karla.

Áhyggjur af hlýnun jarðar voru hvað mestar hjá yngsta og elsta aldurshópnum en 77 prósent þeirra á aldrinum 18-29 ára kváðust hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur og 70 prósent þeirra 68 ára og eldri.

Nokkur munur reyndist á svörum eftir búsetu en íbúar höfuðborgarsvæðisins voru líklegri til að segjast hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar, eða 40 prósent, heldur en íbúar af landsbyggðinni, (26 prósent).

Alls kváðust 96 prósent stuðningsfólks Samfylkingarinnar hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og 89 prósent stuðningsfólks Vinstri grænna. Af stuðningsfólki Miðflokksins kvaðst 39 prósent hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar en 36 prósent litlar áhyggjur.

Könnunin var framkvæmd dagana 23. maí - 29. maí 2019.