Sigmundur davíð: „þeir kyngja ælunni“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega á haust­fundi fulltrúaráðs Miðflokks­ins sem hald­inn var í gær. Sagði Sigmundur að um leið og stjórnin hafi verið mynduð hafi legið fyrir að hún yrði kerfisstjórn og hafi skilgreint sig þannig. Stjórnin hafi upphaflega átt að verða stjórn sem myndi ekki snúast um ólíkar pólitískar áherslur heldur samstöðu en samstaðan hafi falist í því að skipta á milli sín ráðherrastólum en fela svo kerfinu að stjórna. Sigmundur Davíð sagði um Sjálfstæðisflokkinn:

„Sjálfstæðisflokkurinn gaf eftir einn ráðherrastól og lét sér nægja fimm. En hvað hafa þeir gert úr þessum fimm ráðherrastólum?

Hvað í stefnu ríkisstjórnarinnar, ég tala nú ekki um í aðgerðum hennar, gefur til kynna að þetta sé ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur?

Hvað eftir annað láta þeir sig hafa það að styðja mál sem ganga ekki aðeins gegn stefnu flokksins heldur grundvallarhugsjónum, séu þær enn til staðar.

Þeir kyngja ælunni eins og einn þingmaður flokksins orðaði það. Þó er ekki víst að þeir þurfi allir að sætta sig við slíkt mataræði því stór hluti flokksins virðist gleypa það sem Sjálfstæðismenn hefðu áður talið óætt af bestu lyst.

Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að velta fyrir mér hvaða munur væru á stefnu og orðræðu Sjálfstæðisflokksins nú og áherslum Samfylkingarinnar ca 2007.

Ég hef ekki enn fundið þennan mun en ég held áfram að leita.“

Þá næst sneri Sigmundur sér að Vinstri grænum. Um Vg hafði formaður  Miðflokksins þetta að segja:

„Ráðherrar þeirra virðast hafa frítt spil til að innleiða eigin áhugamál. Hvort sem það er innleiðing á marxísku heilbrigðiskerfi eða tilraunir til að koma í veg fyrir framkvæmdir á Íslandi og auðvitað alveg sérstaklega á Vestfjörðum þar sem enginn má gera neitt.

Það vill Vinstri grænum til happs að kerfið hefur að verulegu leyti verið lagað að þeirra sýn og því teljast þetta ekkert endilega pólitískar aðgerðir.

Forsætisráðherrann fær hinn stjórnarflokkinn líka til að samþykkja sín sérstöku áhugamál, t.d. með lögum um fóstureyðingar sem myndu teljast róttæk í Hollandi (og eiginlega alls staðar annars staðar) þótt löggjöfin hafi ekki gengið eins langt og forsætisráðherrann hefði viljað.

Vinstri græn fá meira að segja að endurskipuleggja ráðherralið Sjálfstæðisflokksins.

Við sitjum því uppi með kerfisstjórn þar sem það sem helst sætir tíðindum er innleiðing róttækustu stefnumála Vg.“

Þá var komið að Framsóknarflokknum, þar sem Sigmundur gegndi eitt sinn formennsku. Um Framsóknarflokkinn sagði formaður Miðflokksins:

„...Já, Framsókn.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki bara gleymt helstu stefnumálum sínum heldur snúist gegn þeim.

Það verður ekki betur séð en að sá flokkur hafi þróast nákvæmlega eins og ég sagðist óttast að stefndi í á haustmánuðum 2017. Þar sem viðskiptamódel flokksins yrði það að ráðast í mikla og dýra kosningaherferð fyrir hverjar kosningar með það að markmiði að ná inn nógu mörgum mönnum til að komast í ríkisstjórn með hverjum sem er um hvað sem er.

Fá tvo, þrjá ráðherrastóla og geta útdeilt embættum til réttra aðila.

Eða hvaða stefnumál hefur Framsóknarflokkurinn staðið við?

Nýjan Landspítala á nýjum stað?

Engin veggjöld?

Varðstaða um Reykjavíkurflugvöll?

Fjármálakerfið, Arion banki, vogunarsjóðirnir?

Orkumálin?

Svissneska leiðin, austurríska leiðin, skoska leiðin, belgíska leiðin? Ég man ekki hvað þeir hafa boðað margar leiðir en þeir finna alla vega ekki íslensku leiðina.“