Manst þú eftir litla drengnum með tuskudýrið? svona er líf hans í dag - „ég á fullt af vinum“ – foreldrarnir stofnuðu fyrirtæki - líður vel á íslandi

Ein áhrifaríkasta ljósmynd sem tekin hefur verið í íslenskri fjölmiðlasögu er af albönskum dreng, Kevin Kastriot, sem var langveikur. Myndina tók Kristinn Magnússon,  fyrir Stundina. Kevin stendur í dyrunum heima hjá sér og horfir út í dimma vetrarnóttina. Hann er í blárri úlpu með tuskudýr undir hendinni sem hann hafði fengið að gjöf frá nýjum vini á Íslandi. Lögreglan beið fyrir utan og flutti fjölskylduna út á Keflavíkurflugvöll.

DV vakti fyrst athygli á stöðu fjölskyldunnar á sínum tíma og vakti sú frétt mikla athygli. Það voru þó fréttir Stundarinnar af því, hvernig staðið var að brottflutningi fjölskyldunnar í skjóli nætur sem endanlega fylltu mælinn hjá þjóðinni. Áhrifarík mynd Kristins af Kevin , þar sem hann stóð bjarglaus í anddyri íbúðar í Hlíðunum, snerti við fólki sem mótmælti í kjölfarið að langveiku barni væri vísað úr landi. Alþingi var undir þýstingi frá almenningi og læknum og útlendingastofnun ákvað að endurskoða ákvörðun sína. Í stuttu máli, þá fékk Kevin að snúa aftur heim til Íslands með fjölskyldu sinni. Fjölskyldan fékk ríkisborgararétt.

\"\"Í Albaníu hafði Kevin ekki aðgang að nauðsynlegri læknisþjónustu. Í dag er Kevin mun hraustlegri og líður betur. Stundin tók hús á fjölskyldunni nýverið og í Stundinni sem kom út í dag er rætt við Kevin og foreldra hans. Fékk Stundin að heyra hvernig þeim hafi gengið að fóta sig í lífinu á Íslandi. Kevin er nú í 2. bekk en systir hans Klea í 4. bekk. Í samtali við Stundina segir Xhulia Pepo, móðir drengsins, að Kevin hafi eignast marga góða vini og bæði honum og djölskyldunni líði vel hér á landi.

Þegar Kevin er spurður hvort hann hafi kynnst öðrum börnum svarar hann:

„Ég á fullt af vinum í skólanum. Reyndar eru allir í skólanum vinir mínir.“

Foreldrar Kevins segja að þau hafi fengið aðstoð fyrstu mánuðina til að koma undir sig fótunum. Tveimur árum síðar stofnuðu þau hreingerningafyrirtækið Gullþrif. Xhulia heldur utanum þrif á heimilum og fyrirtækjum og Kastriot eiginmaður sér um bílaþvottinn.

„Þetta gengur bara nokkuð vel hjá okkur, stækkar hægt og rólega, svo við þénum að minnsta kosti nóg til að geta lifað hér og verið hamingjusöm. Það hentar okkur vel að vinna sjálfstætt því við þurfum að geta verið sveigjanleg til að fara með Kevin á spítalann þegar þörf er á því.“

Ítarlegt viðtal við fjölskylduna er að finna í nýjsta tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.