Logi bergmann: reykjavíkurborg að minna mann á nýríkan bjána sem eyðir öllu í einhverja vitleysu og gefur fáránlega mikið þjórfé

„Stundum óttast ég að verða gamall og fúll kall sem hefur allt á hornum sér. Fussandi og frussandi út í loftið og talandi helst alltaf um sama hlutinn. Það er þó ekki útilokað að það hafi þegar gerst, án þess að ég tæki eftir því.“

Þannig hefst pistill sem Logi Bergmann skrifar í Morgunblaðið. Þar fjallar Logi um að honum finnist framkvæmdir hjá Reykjavíkurborg minna sig á nýríkan bjána sem eyðir öllu í einhverja vitleysu og gefur svo fáránlega mikið þjórfé. Minnist hann sérstaklega á framkvæmdir sem eru áætlaðar í gegnum Betri Reykjavík, en þar geta íbúar Reykjavíkur kosið á milli framkvæmda í sínu hverfi.

„Og þá fer Reykjavíkurborg að minna mann á nýríkan bjána sem eyðir öllu í einhverja vitleysu og gefur fáránlega mikið þjórfé. Ein hugmyndin er til dæmis smábókasafn. Upphaflega hugmyndin hljómar svona: „Ég vil láta setja upp litla kassa með loki nálægt blokkunum eða á leikvöllum þar sem fólk myndi geta skipst á bókum (bæði fullorðinsog barnabókum), skilja eftir bækur og fá bækur lánaðar í staðinn.“ Þetta hljómar vel og getur ekki kostað mikið. En í hagkerfi borgarinnar eru tvær milljónir eðlilegt verð fyrir þetta. Bókaskáp!“

Þá segir Logi að Reykjavíkurborg ætli að sér að borga þrjár milljónir fyrir borð sem kosta 23 þúsund krónur í Byko

„Í öðrum hverfum virðist borgin líka ætla að haga sér eins og milljónamæringur á fylleríi. Tvö til þrjú langborð á Klambratúni. Með fylgir mynd af borðum sem kosta 23 þúsund krónur í BYKO. Reykjavíkurborg áætlar að kostnaður við þessi borð sé þrjár milljónir! Sem er reyndar vel sloppið miðað við það að merkingar með krúttlegum skiltum við stígana tvo á Klambratúni eiga að kosta sex milljónir. Sex!“

Að lokum segir hann að það virðist alltaf vera auðveldara að vera rausnarlegur þegar sýslað er með annara manna peninga.

„Mér finnst gott að búa í Reykjavík og kvarta svo sem ekki oft yfir því að borga hæsta útsvar landsins. En ég held að það væri góð hugmynd að starfsmenn borgarinnar myndu nú setjast aðeins niður og velta því fyrir sér smástund hvort þeir væru tilbúnir að borga þessar upphæðir fyrir svona verk ef peningarnir kæmu úr þeirra eigin vasa. Það virðist nefnilega alltaf aðeins auðveldara að vera rausnarlegur þegar sýslað er með annarra manna fé.“