Litlu munaði að sveinn ingi hefði keyrt niður mann: „hjartað tók nokkur auka slög og óvart ákallaði ég almættið hátt og skýrt“

„Áðan hitti ég hann Eilíf. Ég vil kalla hann það þar sem hegðun hans benti til þess að annað hvort telji hann sig eilífan ellegar að honum alveg sama um eigið líf og líðan annarra.“

Á þessum orðum hefur Sveinn Ingi Lýðsson færslu sína á Facebook sem hann gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að fjalla um.

„Svo ég skýri þetta aðeins betur þá var ég ásamt konu minni að aka Norðurnesveginn, kominn rétt framhjá strætóskýlinu við Eyvindarstaðaveginn í áttina að Fógetatorginu. Þetta var um kl. 18:25 og komið svarta myrkur. Að auki var talsverð rigning. Það var umferð á móti og eins og þeir sem til þekkja er lýsingin þarna síður en svo góð og ljós þeirra sem á móti komu glampaði í blautri framrúðunni,“ segir Sveinn sem var á dögunum keyrandi með konu sinni á Álftanesi á fyrrnefndum Norðurnesvegi þegar skyndilega birtist beint fyrir framan þau svartur skuggi.

„Allt í einu sjáum við svartan skugga á veginum beint fyrir framan okkur, ég næ að sveigja örlítið til vinstri og þessi skuggi nánast straukst við bílinn. Hjartað tók nokkur auka slög og óvart ákallaði ég almættið hátt og skýrt. Það geri ég að jafnaði ekki en þar mér var ljóst að þarna hafði verið mannvera hlaupandi á akbrautinni, dökkklædd frá hvirfli til ilja stóð mér alls ekki á sama. Þarna munaði sem sagt hársbreiddinni einni að ég hefði ekið niður mann.“

Mikilvægt að vera með endurskinsmerki

Sveinn ákvað að snúa bílnum við og eftir skamma stund sá hann mann hlaupa inn á Eyvindarstaðaveg og ákvað hann að aka á eftir honum til þess að ræða við hann.

„Ég sagði honum hvað mér hefði orðið illa við og rétt sloppið við skaða hann eða jafnvel bana. Í leiðinni spurði ég hvers vegna hann notaði ekki endurskinsmerki úr því hann sæi ástæðu til að nota akbraut til hlaupa í kolniðamyrkri. Hann svaraði ólundarlega að hann væri með endurskinsmerki á fatnaðinum , reyndar var ekkert sjáanlegt endurskin og greinilegt að afskipti mín voru honum lítt þóknanleg.

Ég kvaddi með þeim orðum að það væri gustukaverk ef hann myndi fylla út eyðublað fyrir líffæragjafa.

Já, mínir kæru samborgarar, við erum ekki eilíf, notum endurskinsmerki, ef ekki þá munið eftir að líffæri okkar geta komið öðrum að gagni ef illa tekst til.“