Klifraði yfir girðingu og fór í miðnætursund í suðurbæjarlaug

Lögreglan hafði nóg að gera í nótt en þó nokkrar tilkynningar bárust lögreglu um ósjálfbjarga fólk í annarlegu ástandi.

Fólkið var aðstoðað, ýmist með akstri heim til sín, á slysadeild eða á gistiskýlið.

Um átta leitið í gærkvöldi óskaði starfsfólk verslunar í hverfi 105 eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar á matvörum. Sakborningur var laus að lokinni skýrslutöku.

Þá voru fimm einstaklingar stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og var einn þeirra aðeins 15 ára gamall. Sá var stöðvaður í hverfi 201 og var hann kærður fyrir akstur án ökuréttinda ásamt því að eldri farþegi í bílnum var kærður fyrir að fela ökumanni stjórn ökutækis. Barnavernd var gert viðvart og haft samband við forráðamann.

Svo var það öryggisvörður einn sem kom að manni sem hafði farið yfir girðingu í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. Sat hann í setlauginni en var rekinn uppúr og látin laus eftir upplýsingatöku lögreglu.