Játaði nauðgunina og fékk lægri dóm

Karlmaður sem játaði fyrir dómi að hafa nauðgað þáverandi unnustu sinni hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, þar af 21 mánuð skilorðsbundinn.

Nauðgunin átti sér stað aðfaranótt miðvikudagsins 18. október 2017 en unnusta mannsins var of ölvuð til þess að geta spornað við verknaðinum.

Sjaldgæft er í málum sem þessu að játning liggi fyrir og leit dómari til þess þegar hann dæmdi manninn. Gerandinn sagði bótakröfu fyrrum unnustu sinnar of háa en hún krafðist 2,5 milljóna króna í miskabætur. Að lokum komst dómari að þeirri niðurstöðu að tveggja ára fangelsisvist ásamt 1,5 milljón króna væri hæfileg refsing. Manninum er einnig gert að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns og konunnar, samtals 1,6 milljónir króna.

Í dómnum kom fram játning mannsins ásamt iðrun á gjörðum sínum.