Hver er Nonni lobó? Sat inni fyrir rán og smygl en sinnir nú sjúklingum með nánast engu reynslu né menntun – „Maðurinn var látinn, skilurðu“

Krísa í Krýsuvík: Hvernig komst hann í þessa stöðu? Sagður stjórna eins og einræðisherra

Hver er Nonni lobó? Sat inni fyrir rán og smygl en sinnir nú sjúklingum með nánast engu reynslu né menntun – „Maðurinn var látinn, skilurðu“

Hann heitir Jón Kristján Jacobsen. Hann kallar sig Nonna lobó. Hann á dóma að baki fyrir smygl og rán en hefur síðan sjálfur sagt að hann vilji láta gott af sér leiða. Hann er með litla menntun og nánast enga reynslu en stýrir einni stærstu meðferðarstöð landsins þar sem okkar veikasta fólk sækist eftir aðstoð. Á árum áður var unnið mjög gott starf í Krýsuvík og þaðan eiga margir góðar minningar og þykir vænt um staðinn. Það er því eðlilegt að gamlir skjólstæðingar Krýsuvíkur verji staðinn þegar um hann er fjallað í fjölmiðlum og það sem nú er að gerast þar. Þegar þeir voru á svæðinu voru þarna ráðgjafar  með mikla menntun. Nú er allt gjörbreytt og það er krísa í Krýsuvík. Ráðgjafar sem áður störfuðu á staðnum bera sterkar tilfinningar til hans. Nú vilja sumir úr þeim hópi frekar láta loka meðferðarstöðinni í Krýsuvík en að hann sé stýrt á þann hátt sem gert er í dag. Þeirra draumur er þó að tekið verði til á staðnum og meðferðarstarfið blómstri á ný, eins og það var. En hver er þessi maður sem er við stjórnvölinn í Krýsuvík. Hver er Nonni lobó? Og hvernig komst hann í þessa stöðu?

Hringbraut greindi frá því nýverið að harmleikur hefði átt sér stað á meðferðarheimilinu á Krýsuvík þegar ungur maður framdi þar sjálfsvíg. Hann tók eigið líf á sunnudegi en á helgum eru sjúklingarnir skildir eftir einir fjarri mannabyggðum og engin á vakt til að gæta þeirra.  Ungi maðurinn hafði því ekki aðgang að neinum sérfræðingum til að tjá vanlíðan sína. Þá var andlátið sem átti sér stað á Krýsuvík, hvorki tilkynnt til Landlæknisembættisins, né Félagsmálaráðuneytisins sem á að hafa eftirlit með meðferðarstöðinni.Margt annað hefur gengið á í Krýsuvík síðustu árin, en áður hafði unnið þar fólk með mikla menntun. Nú er enginn heilbrigðisstarfsmaður á svæðinu. Áður hefur verið greint frá falleinkunn Landlæknis, kynferðisbrotum og óeðlilegu samneyti yfirmanna og sjúklinga og mikla fjármálaóreiðu þar sem yfirmenn hafa keypt sér t.d. margra milljón króna ökutæki fyrir skattpeninga.  

Eftir umfjöllun DV á síðasta ári var ákveðið að grípa í taumana og fékk Krýsuvík tímabundinn samning en ákveðið verður í þessum mánuði hvort hann verði til langframa. Krýsuvík hefur verið að fá 120 milljónir á ári af skattpeningum þjóðarinnar.

Segja má að blaðamenn Hringbrautar hafi rekið sig á vegg þegar til stóð að fjalla um hvernig staðan er nú og hvort eitthvað hafi breyst. Færa má rök fyrir því að staðan hafi hreinlega versnað.

Dagskrárstjóri og sá sem stýrir nú meðferðinni heitir Jón Kristján Jacobsen en gengur undir nafninu Nonni lobó. Á Facebook notar hann sjálfur þetta viðurnefni. Nonni lobó vildi ekki veita Hringbraut neinar upplýsingar um andlátið sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir og eins vildi hann ekki svara saklausum, einföldum spurningum um starfsemina.

Nonni lobó starfaði í fimm ár sem húsvörður á Krýsuvík. Hann var síðan rekinn en sagt að það væri vegna niðurskurðar. Hann tók síðan fjögurra mánaða námskeið hjá Ráðgjafaskóla Íslands. Hann var síðan ráðinn seint á síðasta ári sem ráðgjafi. Nonni lobó er einn besti vinur Þorgeirs Ólasonar sem áður stýrði meðferðarstöðinni en var látinn fara eftir umfjöllun DV.

Nonni lobó var gerður að yfirmanni á Krýsuvík í mars á þessu ári. Nú stýrir hann Krýsuvík en meðferðarstöðin hýsir skjólstæðinga sem eru jafnan þeir sem hafa átt í hve mestum vandræðum með að fóta sig í samfélaginu og á öðrum meðferðarstofnunum. Nonni lobó var sem sagt gerður að yfirmanni eftir aðeins um eitt ár í starfi sem ráðgjafi.

Í dag er ekkert eftirlit með starfseminni, hvorki af hálfu Landlæknisembættisins né Félagsmálaráðuneytisins. Landlæknisembættið segir ástæðuna vera þá að þar starfar enginn heilbrigðisstarfsmaður og því ber embættinu ekki að hafa eftirlit með starfsemi Krýsuvíkur. Félagsmálaráðuneytið segir að það sé til skoðunar hver eigi að sinna eftirliti, þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir samning um að veita Krýsuvík tugmilljónum króna frá ríkinu.

Þegar ungi maðurinn lést - Bæjarleyfi geta reynst lífshættuleg

Þeir sem þekkja vel til segja að bæjarleyfi geti  reynst sjúklingum ákaflega erfið. Leyfið er með þeim hætti að skjólstæðingar yfirgefa Krýsuvík á föstudegi og snúa til baka á laugardegi eða sunnudegi, allt eftir því hversu langan meðferðartíma þeir eiga að baki.

„Það er eiginlega furðulegt að harmleikur eins og þessi hafi ekki átt sér stað fyrr. Þessi leyfi geta verið mjög erfið og fólki liðið illa eftir þau. Það er erfitt þegar fólk er jafnvel fjölskyldulaust eða allir fullir í kring um þau. Þau koma inn í alls konar umhverfi og eru að stíga sín fyrstu spor. Þau þurfa jafnvel mestan stuðning eftir að hafa fengið leyfi, en þegar þau snúa aftur er enginn starfsmaður á svæðinu, enginn til að tala við, nema aðrir sem eru í meðferð og auðvitað eru þau í alls konar ástandi, þó þau reyni kannski að gera sitt besta.“

Ungi maðurinn hafði því engan starfsmann eða sérfræðing til að ræða vanlíðan sína og þá vissu yfirmenn ekki hvernig sálrænt ástand hans var vegna sömu ástæðu, það var engin til taks.

Annar heimildarmaður Hringbrautar segir að Nonni lobó hafi lagt þunga áherslu við starfsmenn og skjólstæðinga að ræða ekki við fjölmiðla eða gefa nokkrar upplýsingar um meðferðarstarfið. Þannig vildi stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna, dagskrárstjóri og aðrir starfsmenn ekki einu sinni svara þeirri almennu spurningu, án tengsla við andlátið, hvort það væri starfandi vaktmaður á Krýsuvík.

DV greindi frá falleinkunn Landlæknis sem birt var í úttekt árið 2016. Þá upplýsti DV um það að Krýsuvíkursamtökunum hefði verið boðið að fá vaktmann að kostnaðarlausu. Því var hafnað.

Enginn fylgist með starfseminni

Hringbraut hafði samband bæði við Landlæknisembættið og Félagsmálaráðuneytið til að fá upplýsingar um hver hefði eftirlit með starfseminni sem fer fram í Krýsuvík. Ekkert eftirlit er með starfseminni sem fer fram á Krýsuvík í dag.

Landlæknisembættið kveðst ekki vera með eftirlit með því hvað gerist á Krýsuvík þar sem þjónustan sem þar er veitt er ekki skilgreind sem heilbrigðisþjónusta. Ástæðan fyrir því er sú að enginn heilbrigðisstarfsmaður er starfandi á Krýsuvík. Benti Landlæknisembættið á Félagsmálaráðuneytið.

Hjá Félagsmálaráðuneytinu fengust þær upplýsingar að þar á bæ er ekkert fylgst með starfseminni. Samkvæmt heimildum Hringbrautar er enn verið að reyna ákveða hver eigi að sinna eftirliti með staðnum, þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir samning um að veita Krýsuvík tugmilljónum króna frá ríkinu.

Andlátið sem átti sér stað á Krýsuvík var hvorki tilkynnt til Landlæknisembættisins, né Félagsmálaráðuneytisins.

Hver er Nonni lobó?

Heimildarmenn Hringbrautar segja Nonna lobó stjórni Krýsuvík líkt og einræðisherra. Hann eigi það til að hrópa og öskra og niðurlægja jafnt skjólstæðinga sem og aðra starfsmenn. Hann vilji hafa alla á tánum.

Einn heimildarmanna Hringbrautar segir um dagskrárstjórann Nonna lobó:

„Það er óskiljanlegt að Krýsuvík sé opinn. Þá er enn ótrúlegra að yfir staðnum sé maður með nánast enga reynslu né hæfileika titlaður dagskrárstjóri. Hann hefur unnið sem ráðgjafi í rúmt ár og er settur í þessa stöðu gagnvart vistmönnum og öðru starfsfólki. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust.“

En hver er Jón Kristján Jacobsen, eða Nonni lobó eins og hann kýs að kalla sig. Jón komst í fréttirnar árið 1993 þegar hann ók vélhjóli af stökkpalli fram af bryggjusporði við Kaffivagninn á Grandagarði. Hann sveif 20 metra í loftinu áður en hann lenti í sjónum. Sagði hann við Morgunblaðið að þar sem enginn hefði gert þetta áður vildi hann fá stökkið skráð sem Íslandsmet.

Fjórum árum síðar hafði Nonni lobó vilst rækilega af leið. Í febrúar 1997 er Nonni Lobó aftur í Morgunblaðinu. Þá var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir fíkniefnasmygl sem átti sér stað árið 1995 en efnin voru falin í mörgæsarstyttu sem send var til landsins.

Í ágúst það sama ár var Nonni lobó dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að taka þátt í að skipuleggja rán og vera flóttabílstjóri.

Nonni lobó var svo í viðtali við RÚV í byrjun árs þar sem hann talaði fyrir því að bæta þyrfti meðferðarstarf og sálfræðiaðstoð fanga. Þar sagði að Nonni lobó hefði fengið fimm ár fyrir fíkniefnasmygl og lokið afplánun árið 2000. Hið rétta er að Nonni lobó fékk dóm fyrir fíkniefnasmygl og að taka þátt í ráni. Hann kláraði í sumar að greiða sakarkostnaðinn og kveðst hafa verið edrú í fjölda ára.