Hommahatari fær stuðning frá davíð í morgunblaðinu á degi gleðigöngunnar – „það er auðvitað út í hött“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er á leið til landsins í opinbera heimsókn. Hann verður á Íslandi þann 3. september næstkomandi. Pence er umdeildur og ítrekað komið fram að hann er á móti réttindum hinsegin fólks. Líkt og Nútíminn benti á nýverið hafa mörg ummæli hans ratað í fjölmiðla. Árið 2006 sagði hann að lög sem leyfi samkynhneigð hjónabönd séu dæmi um hrun samfélagsins en fleiri ummæli er að finna neðst í fréttinni.

Heimsókn Pence hefur verið ítrekað mótmælt, bæði á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Nú þegar tvær vikur eru í komu varaforsetans ákvað Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, að skrifa Reykjavíkurbréf þar sem Davíð gagnrýnir þá sem hafa sett út á að bjóða Pence til landsins og það gerir Davíð sama dag og Gleðigangan fer fram. Davíð segir:

„Það er auðvitað út í hött að fordæma heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Íslands, enda sýnir hún vinsemd og virðingu í garð lands og þjóðar. Mike Pence er varaforseti þjóðar sem hefur í sögulegu samhengi staðið betur með okkur en flestar ef ekki allar aðrar.“

Þá segir Davíð á öðrum stað:

„En skýringin sem gefin er fyrir ónotum og illindum í garð varaforseta þessa vinaríkis okkar nú er að hann hafi sem ríkisstjóri verið andvígur því að samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband. Sagt er að slíkir menn ættu ekki að fá að koma til landsins. Er mönnum alvara?“

Þá heldur Davíð fram að fyrir aðeins örfáum árum hafi langflestir Íslendingar verið sömu skoðunar og varaforsetinn. Davíð segir:

„Sjálfsagt eru ýmsir enn þessarar skoðunar og mega auðvitað vera það. Við hin, sem teljum að fyrrnefnd þróun hafi verið rétt og í takt við tíðarandann og miklu fremur fagnaðarefni en hitt, höfum sjálfsagt mörg verið annarrar skoðunar áður, eða kannski í flestum tilvikum ekki leitt huga sérstaklega að þessu álitaefni, því það var ekki uppi á borðinu fyrr en baráttumenn hristu upp í þjóðarsálinni.

Það var svo margt sem þurfti að laga gagnvart þessum hópi, að hjónabandið kom ekki fyrr en nokkuð seint á þó hraðri þróun eftir að hún hófst fyrir alvöru.“

Þá segir Davíð einnig:

„Áður en umræðan breytti almenningsálitinu voru þeir sem voru hugsandi eða á móti breytingunum örugglega í verulegum meirihluta. Það, hversu hratt tókst að breyta veruleika sem staðið hafði um aldir sem óskeikull hluti tilverunnar, sýnir að afstaðan byggðist að hluta til á gömlum vana þótt hún hefði að nokkru sótt styrk í trúarlegan skilning. Það er alveg fráleitt að banna mönnum að hafa þá afstöðu sem meginþorri þessar þjóðar hafði fyrir skömmu og að segja frá henni.“

Eins og kom fram að ofan greindi Nútíminn frá ýmsu sem varaforsetinn hafði látið frá sér fara. Þar sagði einnig: Árið 1990 hvatti hann vinnustaði í Indiana til þess að ráða ekki samkynhneigða. „Þeim fylgir gífurlegt magn af sjúkdómum vegna kynferðislegs eðlis þeirra og lauslætis,“ var meðal annars það sem Pence skrifaði.

Sem ríkisstjóri Indiana skrifaði hann undir löggjöf sem gerði fyrirtækjum kleift að mismuna hinsegin fólki og nota sínar eigin trúarlegu skoðanir sem rökstuðning. Hann stakk einnig upp á því að nota fjármagn sem ætlað var í lækningar og rannsóknir á HIV frekar í rannsóknir og meðferðir fyrir hinsegin fólk og „lækna það af samkynhneigð“.  Árið 2012 vildi Pence ekki segja að hann styddi við bakið á pörum af sama kyni sem ætluðu sér að ala upp barn saman.