Halli á rekstri seltjarnarnesbæjar – „útgjöld vegna málefna fatlaðra og barnaverndarmál orðin afar íþyngjandi fyrir bæinn“

Yfirlit yfir rekstur Seltjarnarnesbæjar hefur nú verið birt á heimasíðu bæjarins. Rekstur bæjarins reyndist vera talsvert undir áætlunum á fyrstu sex mánuðum ársins.

Skatttekjur námu 1.758 milljónum og voru 50 milljónum undir áætlun. Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ segir að líkt og í fyrra skeri tveir málaflokkar sig úr hvað varðar útgjaldaaukningu; fræðslumál og félagsþjónusta.

Útgjöld til fræðslumála námu 1.097 milljónum, eða 62,4 prósent af skatttekjum. Þessi auknu útgjöld má að mestu rekja til átaks í leikskólamálum þar sem nýr leikskóli, Fagrabrekka, var til að mynda tekinn í notkun.

Útgjöld til félagsþjónustu námu tæpum 326 milljónum, eða 18,5 prósent af skatttekjum. „Eru útgjöld vegna málefna fatlaðra og barnaverndarmál orðin afar íþyngjandi fyrir bæinn,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram: „Unnið er að aðgerðum til að ná jafnvægi í fræðslumálum og félagsþjónustunni. Ljóst er að hagræða þarf á einhverjum vígstöðvum og/eða skera niður þjónustu. Rekstur annarra málaflokka er í jafnvægi.“

Staðgreiðsla útsvars hækkaði um 2,3 prósent. „[A]thygli vekur að meðaltalshækkun sveitarfélaga er 6,1% og töluvert meiri í nágrannasveitarfélögunum,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Fjárhagsstaðan ekki góð

Í apríl síðastliðnum sagði Guðmundur Ari Sigurjónsson, sem situr í minnihluta bæjarstjórnar fyrir Samfylkinguna, í samtali við Mbl.is að fjár­hags­staða sveit­ar­fé­lags­ins væri ekki góð. Ofan á halla í rekstri hafi skuld­ir sveit­ar­fé­lags­ins verið aukn­ar um 2,5 millj­arða króna.

„Það eru all­ar töl­ur rauðar í bók­hald­inu. Það þarf að leggj­ast yfir þetta og búa til ný plön um hvernig við þurf­um að vinna okk­ur út úr þess­ari stöðu. Þetta er ný staða fyr­ir Seltjarn­ar­nes­bæ sem hef­ur gefið sig út fyr­ir að vera með rekst­ur­inn réttu meg­in við núllið,” sagði Guðmundur.

Hann sagði stöðuna grafal­var­lega og kvaðst hafa mikl­ar áhyggj­ur af því í hvaða aðgerðir þyrfti að fara. „Við í Sam­fylk­ing­unni mun­um reyna að verja þá þjón­ustu sem við veit­um. Við þurf­um að ræða skatta­hækk­an­ir eða niður­skurð. Þetta get­ur orðið strembið.”

Þá benti Guðmundur á að inni í A hlut­a rekstraryfirlitsins væru 252 millj­ón­ir króna sem áætlað hafði verið að færu í viðhalds­fram­kvæmd­ir á bygg­ing­um í eigu bæj­ar­ins en ekki hef­ði verið farið í. „Það er verið að mýkja skekkj­una með því að fram­kvæma ekki það sem var búið að samþykkja að gera. Þá birt­ist það sem hagnaður í bók­hald­inu.“